Erlent

Menningararfur Dana ryðgar í bílskúr við herragarð

Hluti af menningararfi Danmerkur er nú aðeins ryðgaður skuggi af sjálfum sér í bílskúr við Aalholm herragarðinn á Lálandi.

Um er að ræða bifreið af gerðinni Chevrolet Bel Air árgerð 1959 sem notuð var í fyrstu kvikmyndunum um hið þekkta Olsen gengi. Þeir Egon, Keld, Benny og Börge óku þessum kagga á milli glæpaverkefna sinna í myndunum.

Aalholm herragarðurinn á Lálandi hýsir stærsta bílasafn Danmerkur, og þó víðar væri leitað, en á því má sjá yfir 200 tegundir bíla og eru þeir elstu frá árinu 1886. Safnið er orðið gjaldþrota og verða bílarnir seldir hæstbjóðenda á uppboði á næstunni.

Í umfjöllun Jyllandsposten um málið er haft eftir formanni fornbílaklúbbs Lálands að ástandið á bíl Olsen-gengisins sé sorglegt og að vélin sé horfin úr honum. Þrátt fyrir það mun vera nokkur áhugi fyrir því að kaupa þennan menningararf Dana, að því er segir í Jyllandsposten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×