Erlent

Kennedy fjölskyldan aftur á leið á þing í Bandaríkjunum

Kennedy fjölskyldan í Bandaríkjunum er aftur á leið í stjórnmálin í Bandaríkjunum en Joseph P. Kennedy III hyggst bjóða sig fram í kosningum um fulltrúadeildarsæti í Massachusetts síðar í ár.

Kennedy fjölskyldan átti mann á Bandaríkjaþingi, annaðhvort í fulltrúa- eða öldungadeildinni samfellt frá árinu 1946 og þar til í fyrra, eða í 64 ár, er fulltrúadeildarþingmaðurinn Patrick Kennedy lauk kjörtímabili sínu.

Þekktustu meðlimir hennar á þessu tímabili voru John F. Kennedy fyrrum forseti Bandaríkjanna og bræður hans Robert og Edward Kennedy sem báðir voru öldungadeildarþingmenn.

Joseph P. Kennedy III er sonarsonur Roberts Kennedys en faðir Josephs sat á Bandaríkjaþingi í 12 ár. Joseph sem orðinn er rúmlega þrítugur er menntaður lögfræðingur frá Stanford háskólanum. Hann var áður meðlimur í friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna en hefur starfað sem saksóknari í Massachusetts frá því hann lauk lögfræðiprófi sínu.

Í umfjöllun um málið á BBC segir að Joseph hafi þegar sagt starfi sínu sem saksóknari lausu og myndað nefnd til að sjá um fjáröflunin fyrir komandi kosningabaráttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×