Erlent

Daniel Radcliffe sakbitinn vegna auðæva sinna

Daniel Radcliffe í hlutverki Harry Potter.
Daniel Radcliffe í hlutverki Harry Potter. mynd/warner brothers
Leikarinn Daniel Radcliffe segist hafa fengið óhóflega borgað fyrir að leika í Harry Potter kvikmyndunum og að hann sé í raun með samviskubit vegna þess hve góð launin voru.

Þetta sagði Radcliffe í opinskáu viðtali við tímaritið Parade. Hann segist ekki hafa verðskuldað auðævin en viðurkennir þó að hann hefði ekki afþakkað launin.

Hann segir tímaritinu að frægðin hafi þó komið að góðum notum. Radcliffe hefur notað orðstír sinn og auðævi til að styðja við bakið á samtökunum The Trevor Project en þau reyna að koma í veg fyrir sjálfsvíg samkynhneigðra unglinga og barna.

Aðspurður um eigið ástarlíf segist Radcliffe vera í sambandi við Rosie Coker en hún var aðstoðarkona við framleiðslu Harry Potter kvikmyndanna.

Radcliffe lýsir heldur vandræðalegum stefnumótum sem hann átti með Coker. Í eitt skipti, að loknum kvöldverði, ákvað Radcliffe að slá um sig og reyndi að smella kossi á Coker. Því miður missti hann kjarkinn í miðri atlögu og endaði með að kyssa Coker á hálsinn. Radcliffe bjóst ekki við að heyra aftur frá Coker en blessunarlega hafði hún samband við hann aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×