Erlent

Stephen Hawking: "Nýlendur á fjarlægum plánetum eru lífsnauðsynlegar"

Stephen Hawking á skrifstofu sinni í Háskólanum í Cambridge.
Stephen Hawking á skrifstofu sinni í Háskólanum í Cambridge. mynd/AP
Eðlisfræðingurinn Stephen Hawking segir að heimsendir sé aðeins tímaspursmál og að mannkynið verði að nema land á fjarlægum plánetum.

Þetta sagði Hawking á útvarpsstöðinni BBC Radio 4 en þar gátu hlustendur hringt inn og leitað svara hjá eðlisfræðingnum.

Hawking sagði að mannkynið gæti orðið fyrir útrýmingu en sá möguleiki sé þó ekki óumflýgjanlegur. Sem dæmi um mögulegar ástæður útrýmingar benti Hawking á kjarnorkustyrjöld og gróðurhúsaáhrifin.

Að mati Hawkings eru nýlendur á öðrum plánetum nauðsynlegar áframhaldandi tilvist mannkyns. Hann telur slíka nýlendustefnu þó ómögulega fyrr en eftir 100 ár.

Hawking vonast til þess að mannkynið komist ekki í kynni við verur frá öðrum plánetum. Að hans mati hljóta geimverurnar að vera mun þróaðri en við og því sé útrýming mannkyns eðlileg afleiðing af kynnum okkar við þær. Þessu til stuðnings bendir Hawking á komu Evrópubúa til Ameríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×