Erlent

Romney mælist með yfir 40% fylgi í New Hampshire

Mitt Romney hefur örugga forystu í skoðanakönnunum í næsta prófkjöri Repúblikanaflokksins sem fram fer í New Hampshire á morgun, þriðjudag.

Skoðanakannanir sýna að Romney fær yfir 40% atkvæða í New Hampshire. Næstur kemur Ron Paul með helmingi minna fylgi eða um 20%. Aðrir fá mun minna fylgi og Rick Santorum, sem Romney sigraði mjög naumlega í Iowa, hefur ekki náð sér á strik í New Hampshire eins og vonir stuðningsmanna hans stóðu til. Hann er í þriðja sæti með 13%.

Fyrir utan gott fylgi í skoðanakönnunum slapp Romney þar að auki óskaddaður úr fyrra sjónvarpseinvígi frambjóðenda í gærdag. Einvígið leysti fljótlega upp í skítkast milli helstu keppinauta Romney. Í síðara einvíginu réðust þeir svo allir á Romney til að byrja með áður en þeir hófu að níða skóinn niður af hvor öðrum að nýju.

Stjórnmálaskýrendur í Bandaríkjunum áhyggjur af því hve mikið skítkast er komið upp í málflutningi þeirra sem berjast um að verða forsetaefni Repúblikanaflokksins og miklu magni af neikvæðum auglýsingum sem frambjóðendurnir senda frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×