Erlent

Setja eiðstafinn ekki fyrir sig

Ætlar að berjast áfram fyrir lýðræðisumbótum í landi herforingjastjórnarinnar.nordicphotos/AFP
Ætlar að berjast áfram fyrir lýðræðisumbótum í landi herforingjastjórnarinnar.nordicphotos/AFP NordicPhotos/AFP
Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, segir að hún og stuðningsmenn hennar ætli að mæta til þings á miðvikudag og sverja embættiseið, þrátt fyrir að þau séu ósátt við orðalag eiðstafsins.

Þau vilja komast hjá því að sverja eið, sem skuldbindur þau til að „verja stjórnarskrána“, enda hafa þau barist fyrir breytingum á henni og voru kosin út á það í þingkosningunum 1. apríl síðastliðinn.

Þess í stað hafa þau viljað fá eiðstafnum breytt þannig að þau skuldbindi sig til þess að „virða stjórnarskrána“.

Þótt þessi breyting hafi ekki náðst fram ætlar Suu Kyi að taka sæti á þingi vegna þess að almenningur er orðinn óþreyjufullur og vill ekki bíða lengur eftir því að stjórnarandstæðingar geti látið rödd sína heyrast á þingi.

„Við erum ekki að gefa neitt eftir heldur fara að vilja fólksins,“ segir Suu Kyi. „Stjórnmál snúast um málamiðlanir.“

Hún ætlar áfram að berjast fyrir þeim lýðræðisumbótum sem hún hefur barist fyrir áratugum saman.

Flokkur hennar vann stórsigur í þingkosningum árið 1990, en herforingjastjórnin tók ekki mark á þeim kosningum. Suu Kyi hefur verið í stofufangelsi megnið af tímanum síðan, með nokkrum mislöngum hléum.

Hún var látin laus á síðasta ári eftir að herforingjastjórnin byrjaði að slaka á klónni.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×