Lífið

Valli Sport umboðsmaður Damons Younger

Valgeir Magnússon er nýr umboðsmaður leikarans Damons Younger og hefur mikla trú á honum.
Valgeir Magnússon er nýr umboðsmaður leikarans Damons Younger og hefur mikla trú á honum. Fréttablaðið/anton
„Ég væri ekki að vinna fyrir hann nema ég hefði mikla trú á honum,“ segir Valgeir Magnússon, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar/TBWA og nú umboðsmaður leikarans Damon Younger.

Valgeir segir Damon hafa sett sig í samband við hann fyrir nokkru síðan en leikarinn hefur slegið í gegn í myndinni Svartur á leik sem var frumsýnd fyrir helgi. Þar leikur Damon glæpamanninn Brúno sem margir vilja meina að sé eitt hræðilegasta illmenni íslenskrar kvikmyndasögu. „Ég sá myndina fyrst um helgina því ég komst ekki á frumsýninguna og var mjög hrifinn. Myndin er svakalega hörð,“ segir Valgeir en hann var staddur með leikaranum í miðbæ Reykjavíkur á laugardaginn og segir að Damon hafi vakið mikla athygli. „Það voru margir sem gáfu honum gaum og ég tók eftir að flestir virtust einfaldlega hræðast hann sem ég skil núna eftir að ég sá myndina. Hann er mjög sannfærandi illmenni.“

Damon er fyrsti leikarinn sem Valgeir vinnur fyrir en hann hefur hingað til aðeins verið með tónlistarfólk á sínum snærum, eins og Heru Björk söngkonu. „Ég hef helst verið að vinna fyrir þá sem vilja ná árangri erlendis og ætla nú að prufa að vera með leikara. Við ætlum að setjast niður á næstu dögum og fara yfir málin,“ segir Valgeir og vill ekkert gefa út um það hvort næstu skref Damons verði á erlendri grundu. „Það er lítill markaður fyrir leikara á Íslandi og flestir horfa því út fyrir landsteinana. Við sjáum hvað setur en ég hef mikla trú á honum.“

- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.