Skoðun

Af Guðs ríki og öðrum skúmaskotum hugans

Gunnlaugur Bragi Björnsson skrifar
Hún stakk nokkuð í stúf, auglýsing Söfnuðar Moskvu-Patríarkatsins á Íslandi í Fréttablaðinu laugardaginn 11. ágúst. Sama dag birtust í fjölmiðlum landsins litríkar auglýsingar fyrirtækja í tilefni þess að þann dag gekk gleðiganga Hinsegin daga um miðborgina og endaði með stórhátíð á Arnarhóli. Þar gerði hinsegin fólk ásamt tugþúsundum fjölskyldumeðlima, vina og annarra gesta sér glaðan dag og fagnaði mannréttindum sem Íslendingar kjósa að virða í stað þess að troða fótum. Á þessum gleðidegi kaus Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins þó að minna á þá skoðun sína að ákveðnir hópar muni ekki erfa Guðs ríki. Söfnuðurinn valdi reyndar að koma ekki fram undir nafni í umræddri auglýsingu en fréttavefurinn Vísir.is nafngreindi auglýsandann tveimur dögum síðar. En í auglýsingunni nefndu rétttrúnaðarmenn „kynvillinga“ ásamt meðal annars þjófum og ræningjum, saurlífismönnum, hórkörlum og skurðgoðadýrkendum.

Hinsegin fólk á Íslandi getur verið stolt af heimalandi sínu enda eru réttindi og stuðningur sem við njótum hér á landi með því besta í heiminum. Fyrir það ber að þakka og í dag eru Hinsegin dagar ekki eingöngu barátta fyrir auknum réttindum heldur í raun fimm daga menningarhátíð þar sem hinsegin fólk þakkar fyrir sig og gefur landsmönnum öllum kost á að njóta fjölbreyttrar dagskrár. Það er mér þó nokkuð áhyggjuefni að ákveðnir hópar kjósi enn þann dag í dag að þeysa um undir merkjum haturs og dilkadráttar samkvæmt þeirra túlkun á Guðsorði. Enn þann dag í dag er skrefið út úr skápnum mörgum einstaklingum þungbært en líkt og nýleg rannsókn sýnir eru sjálfsvígshugleiðingar enn algengari meðal hinsegin unglinga en gagnkynhneigðra jafnaldra þeirra. Orðsendingar sem þessar eru ekki vænlegar til að létta á þeirri innri baráttu sem fjölmargir heyja á öllum tímum.

Það er von mín að Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins og aðrir sambærilegir lífsskoðunarhópar sjái að sér og nýti sameiningu, fegurð lífsins og gleði í baráttu sinni fremur en hatur og sundrung. Ef ekki – þá vona ég í það minnsta að þeir gæti þess að skerða hár sitt samkvæmt öllum kúnstarinnar reglum, klæðist rétt ofnum fatnaði og neyti ekki of ungra ávaxta, til að koma í veg fyrir að þurfa að deila því neðra með kynvillingum og þjófum er fram líða stundir. Ef til þess kemur ætla ég nefnilega að halda áfram að gleðjast þar.




Skoðun

Sjá meira


×