Von er á fjölda listamanna og tónlistarunnenda til landsins á meðan á hátíðinni stendur og eru gistirými í borginni að verða fullbókuð.
Von er á 61 erlendri hljómsveit til landsins í ár og hýsir Iceland Airwaves aðeins hluta þeirra, hinir verða sér sjálfir úti um gistipláss og gera það með ýmsum hætti.
„Þetta er mjög misjafnt, við greiðum sumum hljómsveitunum fyrir að koma til landsins og spila en öðrum bjóðum við „slott“. Þær sveitir borga sjálfar undir sig og koma því þær álíta þetta gott tækifæri til að koma sér á framfæri,“ útskýrir Kamilla Ingibergsdóttir kynningarstjóri Iceland Airwaves.
Umtalsvert fleiri útlendingar en Íslendingar verða á hátíðinni í ár og er búist við um þúsund fleiri erlendra gesta en í fyrra. Þeir sem sækja hátíðina á vegum Iceland Airwaves dvelja á Centerhótel Plaza og viðurkennir Kamilla að hótelið breytist í sannkallað tónlistarhótel á meðan á hátíðinni stendur.
Í ár koma fram 224 listamenn á Iceland Airwaves og eru aðstandendur hátíðarinnar í óða önn að leggja lokahönd á svonefnda „off-venue“ dagskrá, en hana geta allir notið sér að kostnaðarlausu.
sara@frettabladid.is
Fleiri útlendingar í ár
