Harðar árásir Sýrlandshers á borgina Homs hafa nú staðið yfir í heila viku samfleytt. Árásirnar hafa kostað hundruð manna lífið. Nokkrir tugir eru sagðir hafa látið lífið þar í gær.
Tvær sprengjur sprungu við herstöð í borginni Aleppo og ollu miklu tjóni. Þar í borg hefur Bashar al-Assad forseti til þessa átt víðtækan stuðning.
Ríkissjónvarp landsins sagði árásina sanna að stjórnarherinn ætti ekki í höggi við uppreisn almennings heldur vopnaða hópa stjórnarandstæðinga, sem njóti stuðnings erlendra afla.
Hersveitir uppreisnarmanna neita hins vegar að bera ábyrgð á árásinni og segja hana verk stjórnvalda sjálfra, sem vilji með þessu beina athygli heimsins frá ofbeldi stjórnarhersins gegn almenningi.
Að mati Sameinuðu þjóðanna hafa árásir stjórnarhersins gegn mótmælendum í landinu kostað hátt á sjötta þúsund manns lífið frá því uppreisnin hófst fyrir tæpu ári.
- gb

