Lífið

Myrkustu afkimar alheimsins

Charlize Theron og Idris Elba í hlutverkum landkönnuðanna í Prometheus.
Charlize Theron og Idris Elba í hlutverkum landkönnuðanna í Prometheus.
Vísindatryllirinn Prometheus í leikstjórn Ridleys Scott var heimsfrumsýnd á Íslandi í gær í þrívídd. Í myndinni uppgötva landkönnuðir vísbendingu um uppruna mannsins á jörðinni og leggja upp í ferðalag um myrkustu afkima alheimsins.

Í Prometheus snýr Ridley Scott sér aftur að sérdeild sinni vísindaskáldskap og er myndin sögð sjálfstæð forsaga kvikmyndarinnar Alien. Leikstjórinn er hvað þekktastur fyrir hana ásamt vísindatryllinum Blade Runner, sem kom út fyrir þrjátíu árum.

Geimveran ógurlega úr Alien kemur þó ekki við sögu í þessari nýju mynd. Þvert á móti skapar Scott nýstárlega goðsögn þar sem hópur geimfara uppgötvar vísbendingu sem gæti leitt þá að uppruna mannsins á jörðinni. Vegna þessarar skyndilegu vitneskju sinnar verða þeir að ferðast um óhugnanlegustu staði alheimsins og heyja skelfilegan bardaga til að bjarga framtíð mannkynsins.

Kvikmyndin var frumsýnd í Bretlandi 31. maí við góðar undirtektir. Gagnrýnendur Hollywood Reporter og Time Out London létu keimlík ummæli falla. Þeir sögðu hana myndrænt áhrifamikla og magnaða tæknilega séð en kvörtuðu yfir fyrirsjáanlegum söguþræði.

Flestir fóru fögrum orðum um leikarana og þá sérstaklega frammistöðu Michaels Fassbender. Hann er þó ekki eina stjarna kvikmyndarinnar en þau Noomi Rapace, Charlize Theron, Guy Pearce, Patrick Wilson og Idris Elba fara með önnur aðalhlutverk. Haft var eftir Theron að með þessari kvikmynd hefði langþráður draumur orðið að veruleika.

„Alla leikara dreymir um að vinna með ákveðnum leikstjóra og hjá mér var það Ridley," sagði hún.

hallfridur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.