Innlent

Rannsaka öll kúabú vegna smitsjúkdóms

Svavar skrifar
landbúnaðurSmitandi barkabólga, sem er alvarlegur smitsjúkdómur, hefur greinst á einu kúabúinu á Egilsstöðum á Austurlandi. Matvælastofnun mun kalla eftir sýnum frá öllum kúabúum landsins á næstu dögum. Sjúkdómurinn er litinn alvarlegum augum, en hann flokkast með þekktum skaðvöldum eins og riðu, sullaveiki og gin- og klaufaveiki.

Hjörtur Magnason, héraðsdýralæknir Austurumdæmis, segir að málið sé alvarlegt, upp að vissu marki. „Hins vegar vitum við ekki enn hvernig dreifingin á smitinu er og erum því í lausu lofti hvað varðar aðgerðir og hversu alvarlegt þetta er.“

Hjörtur er búinn að senda sýni úr öllum mjólkurbúum í Austurumdæmi, sem eru fjörutíu bæir frá Bakkafirði austur í Öræfi, til rannsóknar, en niðurstöður liggja fyrir um miðja næstu viku. Þá voru tekin stroksýni úr öllum smituðum dýrum á Egilsstaðabúinu á þriðjudagskvöld og send til rannsóknar á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. „Niðurstaða þeirra sýnir væntanlega hvaða týpa af veiru þetta er. Við vitum því ekki í dag hversu alvarleg þessi mynd er,“ segir Hjörtur en tekur fram að allt of snemmt sé að tala um möguleikann á því að stofninn á Egilsstaðabúinu verði felldur. Um áttatíu mjólkurkýr eru á Egilsstöðum og helmingur þeirra er smitaður. Mælt hefur verið fyrir um auknar smitvarnir og bann við sölu lífdýra frá búinu. Sýni voru jafnframt tekin á öðrum búum sem Egilsstaðabúið hefur nýlega haft viðskipti við með lifandi dýr en þau reyndust öll neikvæð. Því bendir ekkert til annars en að sýkingin sé einangruð við Egilsstaðabúið.

Vegna sýkingarinnar hefur Landssamband kúabænda óskað eftir samstarfi við Matvælastofnun, sem mun kalla eftir sýnum frá öllu landinu á næstu dögum. Frá árinu 2007 hafa árlega verið tekin sýni frá um áttatíu búum á ári til rannsókna á nokkrum alvarlegum smitsjúkdómum, þar á meðal smitandi barkabólgu, en öll sýni hafa hingað til verið neikvæð.

Matvælastofnun fundar með bændum á Austurlandi í dag vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×