Skoðun

Tryggvi og tól hagfræðinnar

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Vegna „tækifærismennsku ófyrirleitinna stjórnmálamanna“, lýðskrums og staðleysna í umræðunni um fiskveiðistjórnun, hefur Tryggvi Þór Herbertsson farið yfir málið í nokkrum greinum með „tólum hagfræðinnar“.



Tryggvi bendir réttilega á að forsendur hagkvæmrar útgerðar séu takmarkanir á aðgangi að auðlindinni, að veiðirétturinn sé til lengri tíma og að veiðirétturinn sé framseljanlegur.



Aðeins fyrningarleiðin uppfyllir öll þessi skilyrði. Í henni fá útgerðir lögvarinn rétt til veiða með kaupum á langtíma veiðirétti meðan veiðirétturinn er aðeins til eins árs í núverandi kerfi. Sóknarmark, sem fyrrverandi sjálfstæðismenn í Frjálslynda flokknum hafa aðallega barist fyrir, uppfyllir ekkert skilyrðanna. Þar til viðbótar fullnægir fyrningarleiðin kröfum Sameinuðu þjóðana um lágmarks mannréttindi sem núverandi kerfi gerir ekki.



Það er því engin tilviljun að þeir þrír nóbelsverðlaunahafar í hagfræði sem hafa tjáð sig um málið hafa mælt með fyrningarleiðinni. Hinn virti sérfræðingur á sviði samkeppnishæfni, Michael Porter, hefur einnig bent á mikilvægi nýliðunar, sem er eitt af því sem fyrningarleiðin tryggir. Sterkustu rökin fyrir hagkvæmni fyrningarleiðarinnar koma þó frá LÍÚ. Í umdeildri skýrslu bentu þeir á að núverandi útgerðarfyrirtæki gætu engan veginn staðist samkeppni við hagkvæmari nýliða sem myndu ryðja þeim til hliðar í samkeppni um kvótann.



Það er svo aðeins með fyrningarleiðinni að hægt er að fá óumdeilt verðmat á auðlindinni og munu því deilur um auðlindagjald heyra sögunni til. Það er líklegast meginástæðan fyrir andstöðu LÍÚ við leiðina.



Það er því stórmerkilegt að Tryggvi nefnir fyrningarleiðina aldrei á nafn. Í staðinn hælir hann nákvæmlega eins stjórnkerfi, sem daninn Warming lagði til. Enda hefur forysta Sjálfstæðisflokksins barist gegn fyrningarleið meðan Pétur Blöndal og jafnaðarmenn eru helstu stuðningsmenn leiðarinnar. Því lýsir það Tryggva betur en Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hann kallar hana lýðskrumara.



Nær væri fyrir Tryggva að líta í eigin barm ef hann vill minnka lýðskrum, enda verða fyrri fullyrðingar þingmannsins um að geta galdrað í burtu 20% af skuldum landsmanna varla nefnd öðru nafni.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×