Skoðun

Greið leið til stjórnlagaþings?

Hörður Bergmann skrifar

Hvernig á að bregðast skjótt við dómi hins bókstafstrúaða hæstaréttar og staðfesta hiklaust vilja þorra þjóðarinnar til að unnið sé skipulega og lýðræðislega að nýrri stjórnarskrá? Hvaða leið að því marki er í senn sanngjörn, rökleg og hagkvæm?

Ég sé ekki betur en hún blasi við: Einfaldlega að samþykkja á Alþingi að fela þeim sem hlutu kosningu til stjórnlagaþingsins að vinna það verk sem þeir voru kosnir til. Vinna verkið og ljúka því samkvæmt gildandi lagaákvæðum um verkefni þingsins.

Í rökstuðningi fyrir slíkri tillögu má minna á að þessir fulltrúar eru valdir af þeim stóra hluta atkvæðisbærra manna sem setti sig inn í málið og hafði fyrir því að koma á kjörstað. Það, ásamt augljósum áhuga stjórnlagaþingsfulltrúanna á verkefninu og verðmætri þekkingu þeirra á því, mælir með þessari leið að langþráðu marki þjóðar sem hefur búið við 66 ára gamla bráðabirgðastjórnarskrá með ákvæðum sem túlka má á marga vegu. Með því að gefa þeim kost á að hefja verkið tafarlaust samkvæmt beiðni Alþingis nýtist undirbúningsstarf fulltrúanna og þeirra sem eru að skapa þeim góð starfsskilyrði. Skaðabótakröfur koma ekki fram og kostnaður af nýjum kosningum verður enginn. Og gleymum ekki því sem Ögmundur Jónasson hefur minnt rækilega á í fjölmiðlum: gallar á framkvæmd kosninganna teljast ekki hafa breytt úrslitunum; það var ekkert svindl í gangi.

Allir stjórnmálaflokkarnir ættu því að geta sammælst um þessa leið. Stjórnarflokkarnir mundu fá hrós fyrir skjót viðbrögð með því að leggja svona tillögu fram, samþykkja hana og eyða þar með óvissu um tafir, kostnað af nýjum kosningum og skaðabótakröfur.

Stjórnarandstöðuflokkarnir eiga kost á að baða sig í þeim ljóma með því að samþykkja þessa leið - nú, eða láta andstöðu sína við stjórnlagaþing skýrar í ljós en fyrr með því að greiða atkvæði gegn henni. Alþingismenn hljóta yfirleitt að vera ánægðir með að fá sem fyrst að segja sitt um stjórnarskrárdrög frá stjórnlagaþingi - og fá strax að sýna hvaða hug þeir bera til verkefnisins. Það kann að vera hlutverk hæstaréttar að rýna í öll smáatriðin, en sannir stjórnmálaleiðtogar gæta aðalatriða og almannahags.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×