Lífið

Fyrstu skref Of Monsters and Men í Bandaríkjunum

Of Monsters and Men kom fram í Kanada á dögunum við frábærar viðtökur.
Of Monsters and Men kom fram í Kanada á dögunum við frábærar viðtökur.
Of Monsters and Men er ein af hljómsveitum ársins. Á næstunni kemur út stuttskífa með hljómsveitinni á iTunes, en upptökustjóri Arcade Fire tók lögin í gegn fyrir útgáfuna.

„Það er allt yndislegt,“ segir Ragnar Þórhallsson, söngvari og gítarleikari Of Monsters and Men. Hljómsveitin var stödd í Fljótshlíð þegar Fréttablaðið náði í Ragnar, en þar hvíla þau sig ásamt því að vinna að nýjum lögum.

Árið 2011 hefur verið gott fyrir Of Monsters and Men. Hljómsveitin sendi frá sér fyrstu plötuna sína, My Head Is an Animal, og sló í gegn með laginu Little Talks. Þá gerði hljómsveitin samning við Universal-útgáfurisann, en fyrirhugað er að gefa út My Head Is an Animal í Bandaríkjunum í apríl á næsta ári, skömmu eftir að hljómsveitin kemur fram á South by Southwest-hátíðinni í Texas. Loks er Of Monsters and Men í 12. sæti sæti á lista bandaríska tónlistartímaritsins Paste yfir bestu nýju hljómsveitir ársins.

Stuttskífa með lögunum Little Talks, Six Weeks, Love Love Love og From Finner kemur út á iTunes í desember. Upptökustjórinn Craig Silvey endurhljóðblandaði lögin, en hann hljóðblandaði meðal annars plöturnar The Suburbs með Arcade Fire, Suck It and See með Arctic Monkeys og Third með Portishead. Hljómsveitin vinnur nú einnig að því að slípa breiðskífuna sína fyrir útgáfu á næsta ári.

„Platan verður eitthvað aðeins breytt,“ segir Ragnar. „Þetta er gott tækifæri fyrir okkur að gera hana betri. Slípa til og breyta því sem við vildum gera öðruvísi en gerðum ekki. Við erum mestmegnis að gera þetta sjálf, en við fáum einhverja þarna úti til að hjálpa okkur.“

Of Monsters and Men spilaði á þrennum tónleikum í Kanada á dögunum, tvennum í Toronto og einum í Montréal. Viðtökurnar voru góðar – raunar svo góðar að fólk söng með þekktari lögum hljómsveitarinnar. „Það var allavega mikið tekið undir í Little Talks og fleiri lögum, það voru nokkrir sem sungu mikið með. Það var mjög sérstakt,“ segir Ragnar. „Það var mjög súrrealísk upplifun. Það var fólk fremst sem var búið að hlusta á okkur áður. Það var algjör snilld.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.