Skoðun

Rangur dómur

VIlhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. E-12/2010 að fréttaflutningur um fjárhag og viðskipti Eiðs Smára Guðjohnsen í DV og á vefsvæðinu dv.is hefði falið í sér réttarbrot. Í málinu var óumdeilt að fréttastjóri DV bar ábyrgð á umfjöllun um fjárhagsmálefni Eiðs í DV á grundvelli 2. mgr. 15. gr. prentlaga, sem nafngreindur höfundur. Hins vegar var deilt um hvort umfjöllunin fæli í sér réttarbrot. Héraðsdómur mat það svo að friðhelgi einkalífs Eiðs gengi framar tjáningarfrelsi fréttastjórans og dæmdi hann til refsingar og greiðslu miskabóta. Undirritaður lögmaður er ósammála framangreindu hagsmunamati héraðsdóms, en fyrst skoðun dómsins var þessi þá var refsi- og fébótaábyrgð vegna umfjöllunarinnar réttilega lögð á fréttastjórann.



Öðru máli gegnir um þá niðurstöðu héraðsdóms að leggja refsi- og fébótaábyrgð á ritstjóra DV vegna frétta um Eið Smára á dv.is á grundvelli lögjöfnunar frá 3. mgr. 15. gr. prentlaga. Sú niðurstaða héraðsdóms er röng. Það er grundvallarregla í réttarríki að borgararnir verða ekki dæmdir til refsingar nema samkvæmt skýrri og ótvíræðri lagaheimild. Sömuleiðis er það meginregla að menn verða almennt ekki dæmdir til refsingar á grundvelli lögjöfnunar.



Prentlögin gilda aðeins um prentuð rit. Meginreglan um ábyrgð á efni rita er í 13. gr. prentlaga, en samkvæmt ákvæðinu ber sá refsi- og fébótaábyrgð samkvæmt almennum reglum laga, sem birtir eða dreifir eða á hlut að birtingu eða dreifingu annars rits en blaðs eða tímarits, ef efni ritsins brýtur í bága við lög. Í 15. gr. prentlaga eru síðan sérreglur, undantekningar frá meginreglu 13. gr. prentlaga, sem hafa að geyma sérstakar ábyrgðarreglur sem gilda einungis um blöð og tímarit.



Sérreglan um ábyrgð ritstjóra samkvæmt prentlögum byggir meðal annars á því að ritstjóri les yfir og tekur endanlega ákvörðun um efnisinnihald blaðs eða tímarits áður en það fer í prentun. Þegar um vefrit er að ræða birta starfsmenn útgefanda efnið sjálfir yfirleitt án nokkurrar aðkomu ritstjóra. Hér er því ólíku saman að jafna og eðlilegt að ólíkar reglur gildi um ábyrgð á birtingu efnisins. Að óbreyttum lögum ber því útgefandi (rétthafi léns), í því tilviki sem hér um ræðir DV ehf., ábyrgð á því efni sem ekki er merkt ákveðnum höfundi og birt er í vefritinu.



Það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir beitingu lögjöfnunar að það tilvik sem lögjöfnunin á að ná til sé ólögákveðið. Þá er almennt viðurkennt að lögjöfnun frá undantekningarreglum sé ekki tæk. Tilvikið sem hér um ræðir og varðar birtingu frétta um Eið Smára á dv.is var ekki ólögákveðið heldur gilda um það almennar reglur refsi- og fébótaréttarins. Til þess að leggja refsi- og fébótaábyrgð á ritstjóra DV bar því að sanna sök á ritstjórana en sýkna þá að öðrum kosti. Það gerði héraðsdómur ekki heldur lagði hlutlæga refsi- og skaðabótaábyrgð á ritstjórana með lögjöfnun frá 15. gr. prentlaga.



Hér var því um ranga beitingu héraðsdóms á réttarheimildum að ræða sem leiddi til rangrar niðurstöðu í dómsmáli. Málinu verður áfrýjað til Hæstaréttar.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×