Viðskipti innlent

Millifærði eftir ávarp Geirs

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Millifærslur samtals upp á tæplega fimmtán milljarða króna frá Landsbankanum yfir til Straums annars vegar og MP banka hins vegar daginn sem neyðarlögin voru sett voru gerð eftir lokun stórgreiðslukerfis Seðlabankans og var kerfinu haldið opnu með leyfi bankastjórnar Seðlabankans.

Sérstakur saksóknari eru nú að rannsaka hvort að tvær millifærslur af reikningi Landsbankans hinn 6. október 2008, sama dag og neyðarlögin voru sett, falli undir skilasvik samkvæmt 250. gr. almennra hegningarlaga. Þ.e að peningarnir sem voru millifærðir hafi á þeim tímapunkti tilheyrt kröfuhöfum bankans og á þeim hafi verið brotinn réttur með millifærslunum. Annars vegar var þetta 7,2 milljarða króna millifærsla til Straums og hins vegar 7,4 milljarða króna sem fóru til MP banka. Þessi rannsókn er einn angi af stærri sakamálarannsókn á starfsemi Landsbankans fyrir hrun.

Framkvæmdar eftir lokun stórgreiðslukerfis

Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 voru báðar millifærslurnar, samtals 14,6 milljarðar króna, framkvæmdar eftir lokun stórgreiðslukerfis Seðlabankans, klukkan fimm þennan dag. Þetta mun hafa komið fram í gögnum úr stórgreiðslukerfi bankans. Millifærslurnar áttu sér því stað eftir ávarp Geirs H. Haarde klukkan fjögur sama dag þegar hann tilkynnti þjóðinni um neyðarlögin og bað Guð um að blessa Ísland.

Samkvæmt heimildum fréttastofu innan úr Seðlabanka Íslands gerðist það af og til að stórgreiðslukerfinu var haldið opnu lengur en reglur mæltu fyrir um og var það þá gert með samþykki bankastjórnar, en ábyrgð á stórgreiðslukerfinu var hjá fjármálasviði bankans. Mun kerfinu hafa verið haldið opnu einstaka sinnum þegar mikil viðskipti voru ókláruð í kerfinu. Í framkvæmd mun samþykki eins af seðlabankastjórunum þremur hafa verið látið duga í tilvikum sem þessum, en hinn 6. október voru Davíð Oddsson, Ingimundur Friðriksson og Eiríkur Guðnason, seðlabankastjórar.

Ekki hefur fengist upp gefið hver bankastjóranna gaf samþykki sitt í umræddu tilviki. Eftir því sem fréttastofa kemst næst beinist rannsókn sérstaks saksóknara enn að Landsbankanum eingöngu og hefur embættið ekki til rannsóknar hvort Seðlabankinn hafi brotið lög eða reglur með því að halda kerfinu opnu lengur en til klukkan fimm þennan dag.



Dregið á lánalínu og uppgjör vegna „ástarbréfa"


Samkvæmt heimildum fréttastofu munu þær skýringar hafa verið gefnar á millifærslunum til Straums að um hafi verið að ræða lánalínu sem bankinn hafi dregið á. Í tilviki MP banka var um að ræða uppgjör á samningi vegna svokallaðra endurhverfra viðskipta, sem í almennri umræðu hafa verið nefnd „ástarbréf." Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur embætti sérstaks saksóknara yfirheyrt Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi forstjóra MP banka, Jóhann Tómas Sigurðsson, yfirmann lögfræðisviðs bankans og Margeir Pétursson, fyrrverandi stjórnarformann MP banka, en þeir munu allir vera vitni í málinu.

Reglum Seðlabankans um millifærslur í stórafgreiðslukerfi var breytt eftir hrun og bankanum gefið vald til að stöðva fyrirvaralaust millifærslur sem gætu ógnað stöðugleika eða skapað hættu. Slík heimild var ekki til staðar þegar Landsbankinn millifærði umrædda 14,6 milljarða af reikningi sínum hjá Seðlabankanum, sama dag og neyðarlögin voru sett.




Tengdar fréttir

35 milljarða viðskipti til rannsóknar

Sérstakur saksóknari gerði í gær húsleitir á fimm stöðum, meðal annars í Seðlabanka Íslands, og handtók fjóra fyrrverandi starfsmenn Landsbankans vegna rannsóknar á 35 milljarða viðskiptum sem Landsbankinn átti 6. október 2008, daginn áður en bankinn var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Milljarðar millifærðir daginn sem neyðarlög voru sett

Sama dag og neyðarlögin voru sett í miðju bankahruninu voru millifærðar háar fjárhæðir út af reikningum Landsbankans hjá Seðlabankanum, en húsleitir sérstaks saksóknara í dag hjá MP banka, Straumi og Seðlabankanum beinast meðal annars að þessu.

Húsleitir hjá Seðlabanka, Straumi og MP - handtökur gerðar

Sérstakur saksóknari hefur gert húsleitir í dag. Samkvæmt upplýsingum Vísis tengist rannsóknin MP banka, Straumi og Seðlabankanum. Sérstakur saksóknari vildi ekkert láta hafa eftir sér um málið þegar að Vísir hafði samband við hann í dag. Samkvæmt heimildum Vísis hafa handtökur verið gerðar í tengslum við rannsóknina.

Seðlabankann skorti heimildir til að stöðva útgreiðslu á hrundegi

Reglum Seðlabankans um millifærslur í stórafgreiðslukerfi var breytt eftir hrun og bankanum gefið vald til að stöðva fyrirvaralaust millifærslur sem gætu ógnað stöðugleika eða skapað hættu. Slík heimild var ekki til staðar þegar Landsbankinn millifærði rúma 15 milljarða hjá Seðlabankanum, sama dag og neyðarlögin voru sett.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×