Viðskipti innlent

Seðlabankamenn yfirheyrðir hjá sérstökum saksóknara

Sigurður Sturla pálsson Yfirmaður alþjóða- og markaðssviðs hefur ásamt fleiri starfsmönnum bankans mætt í skýrslutöku.
Sigurður Sturla pálsson Yfirmaður alþjóða- og markaðssviðs hefur ásamt fleiri starfsmönnum bankans mætt í skýrslutöku.

Nokkrir starfsmenn Seðlabanka Íslands hafa mætt til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara vegna rannsóknar embættisins á málefnum Landsbankans, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Skýrslur af flestum voru teknar í síðustu viku en Sigurður Sturla Pálsson, yfirmaður alþjóða- og markaðssviðs, var boðaður til yfirheyrslu á mánudegi. Hann var staddur erlendis þegar sérstakur saksóknari réðst í aðgerðir sínar á fimmtudaginn var.

Meðal annars var farið í húsleit í Seðlabankanum. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hefði ekki stoðað að óska einfaldlega eftir upplýsingum úr bankanum, enda eru þær varðar með bankaleynd og hefðu því ekki fengist afhentar nema að fengnum úrskurði dómstóla.

Enginn starfsmaður Seðlabankans er með réttarstöðu grunaðs manns, samkvæmt heimildum blaðsins, heldur eru allir fengnir til að vera vitni í málinu, einkum um tæknileg atriði.

Málið snýst um millifærslur á fimmtán milljörðum út af reikningum Landsbankans í Seðlabankanum til MP banka og Straums. Starfsmenn Seðlabankans þurftu ekki að hafa milligöngu um millifærslurnar, heldur gátu reikningshafar séð alfarið um þær. - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×