Erlent

Ótrúlegur bati Minhaj

Kraftaverki líkast. Bati Minhaj litla hefur verið með ólíkindum síðustu þrjá mánuði.
Kraftaverki líkast. Bati Minhaj litla hefur verið með ólíkindum síðustu þrjá mánuði. Fréttablaðið/AP
Í fréttum Myndin af Minhaj fór í fjölmiðla um allan heim á sínum tíma, þar á meðal Fréttablaðið.
Hinn tíu mánaða gamli Minhaj Gedi Farah var lítið annað en skinn og bein þegar hann kom til Dadaab-flóttamannabúðanna í Kenía fyrir þremur mánuðum.

Innsognar kinnar hans, uppglennt augu og örmjóir handleggir birtust í fjölmiðlum um allan heim og áttu þátt í að opna augu heimsbyggðarinnar fyrir neyðarástandinu og hungursneyðinni sem hafði gerjast um mánaðaskeið í Austur-Afríku.

Móðir Minhaj hugði honum vart líf þar sem hann lá á sjúkrabeði sínum, en eftir meðferð hjá hjálparsamtökum hefur drengurinn litli náð sér að fullu.

Hann er nú með þrýstnar bollukinnar og vegur átta kíló, sem er nærri meðalþyngd tíu mánaða gamalla barna.

Lykillinn að þessum árangri er aðstoð hjáparsamtaka sem hafa alið Minhaj á næringarbættu jarðhnetumauki, Plumpynut að nafni.

Þrátt fyrir að mataraðstoð berist nú rúmlega tveimur milljónum nauðstaddra á svæðinu, eru enn 1,8 milljónir hjálpar þurfi.

Flóttamannastraumurinn hefur minnkað nokkuð, en þó eru um 168.000 börn undir fimm ára aldri í bráðri hættu nema þau fái hjálp.

Alþjóðasamfélagið hefur lagt til 779 milljónir dala af þeim 1.000 milljónum sem Sameinuðu þjóðirnar óskuðu eftir.

„Hungursneyðin er ekki að baki, börn eru að deyja hvern dag,“ segir Hannan Sulieman hjá UNICEF.

„Vannæring er enn langt yfir neyðarmörkum líkt og verið hefur síðasta áratuginn.“

UNICEF hyggst viðhalda núverandi starfsemi til hjálpar nauðstöddum fram á næsta haust, og er vonast til þess að þá hafi landbúnaður á svæðinu tekið við sér.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×