Erlent

Kröfuganga í New York á miðvikudaginn

Frá mótmælum í New York í dag.
Frá mótmælum í New York í dag. mynd/AFP
Mótmælin halda áfram í Bandaríkjunum. Síðustu daga hefur hreyfingin Occupy Wall Street vaxið ásmeginn og hafa mótmælendahópar sprottið upp víða þar í landi.

Fyrir stuttu var tilkynnt að mótmælendaganga muni eiga sér stað núna á miðvikudaginn í New York. Búist er við því að gangan verði fjölmenn að þessu sinni en verkalýðsfélög og framsæknir leiðtogar samfélagshópa hafa lýst yfir stuðningi við mótmælin. Verkalýðsfélög hafa hvatt stúdenta til þess að taka þátt í kröfugöngunni.

Gengið verður frá Foley torgi í Manhattan til Zucotti Park en þar hafa mótmælendur haldið til síðustu daga.

Erfitt hefur verið að sannfæra efasemdamenn um gildi mótmælanna. Aðgerðarsinnarnir hafa verið gagnrýndir fyrir skipulagsleysi og að hafa ekki heilsteyptan kröfulista. David Graeber, einn af skipuleggjendum mótmælanna, sagði í viðtali í dag að mótmælendurnir neiti að gangast undir orðræðu stofnanna og að kröfur um breytingu þeirra séu í raun stuðningsyfirlýsing við þær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×