Viðskipti innlent

Telur hagvöxtinn viðunandi í alþjóðlegum samanburði

Greining Íslandsbanka telur að hagvöxtur upp á 2,2% á Íslandi sé viðunandi í alþjóðlegum samanburði um þessar mundir. en hann var 2,5% að meðaltali í ríkjum ESB og 2,3% í Bandaríkjunum á sama tíma. Á Norðurlöndunum var vöxturinn 6,5% í Svíþjóð, 5,8% í Finnlandi, 1,3% í Danmörk og 0,1% í Noregi.  Þess ber þó að geta að flest þessara landa hafa verið að rétta úr kútnum um nokkurt skeið og hagvöxtur mældist þar í fyrra öfugt við Ísland.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að hagvöxtur mældist á fyrsta fjórðungi ársins. Var landsframleiðslan þá 3,4% meiri í magni mælt en á sama fjórðungi í fyrra. Er þetta í fyrsta sinn sem vöxtur mælist þannig síðan á 2. ársfjórðungi 2008. Ársíðarleiðrétt var vöxturinn á milli ára 2,2%.

Það var Hagstofa Íslands sem birti hagvaxtartölur fyrsta ársfjórðungs í morgun en hagstofa ESB birti endurskoðaðar hagvaxtartölur fyrsta ársfjórðungs fyrir aðildarríki ESB á sama tíma.

Hagvöxturinn á fyrsta fjórðungi ársins var knúinn áfram af aukningu í fjárfestingum og neyslu. Jókst einkaneyslan um 1,5% frá sama ársfjórðungi í fyrra í magni talið og fjárfestingin um 13,3%. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var hins vegar neikvætt á fyrsta fjórðungi þar sem útflutningur dróst saman um 1,6% og innflutningur jókst um 1,3%.

Í ljósi lágs raungengis og hagvaxtar á heimsvísu eru það vonbrigði að sjá ekki vöxt í útflutningi. Ekki var nema 1,1% vöxtur í útflutningi í fyrra og fer þetta ár ekki vel af stað. Líklegt er að skuldavandi fyrirtækja og erfiður aðgangur að erlendu fjármagni er að setja því skorður hversu vel tækifærin til aukins hagvaxtar eru að nýtast á þessum vettvangi.

Auk þess eru helstu vöruútflutningsgreinar Íslands, sjávarafurðir og ál, lítt færar um að auka framleiðslu til skamms tíma litið, þar sem sú fyrrnefnda er háð þróun aflamarks og sú síðarnefnda framboði á orku og alllöngum framkvæmdatíma til aukinnar framleiðslugetu.

„Tölur þessar renna stoðum undir þær spár sem hafa sagt að hagvöxtur verði hér á landi í ár. Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Hagstofa Íslands og OECD spá allir hagvexti á bilinu 2,2-2,3% á þessu ári. Í ljósi þess að hagvaxtartölur fyrsta fjórðungs er í takti við þessar spár reiknum við ekki með því að þær breyti neinu um næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans. Reiknum við með því að bankinn haldi stýrivöxtum sínum óbreyttum en útilokum ekki hækkun um 0,25 prósentur,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×