Viðskipti innlent

Vilja nefndarfund til að ræða aðrar leiðir til afnáms gjaldeyrishafta

Sjálfstæðismennirnir Pétur Blöndal og Tryggvi Þór Herbertsson og framsóknarmaðurinn Birkir Jón Jónsson, sem allir eiga sæti í efnahags- og skattanefnd, hafa óskað eftir því við Helga Hjörvar formann að hann kalli nefndina saman hið fyrsta. Tilefnið er uppboð Seðlabankans á krónum sem fram fór í gær. Þingmennirnir vilja að starfsmenn bankans verði kallaðir fyrir nefndina til þess að lýsa skilyrðum og umgjörð uppboðsins en uppboðið er hluti af áætlun um að afnema gjaldeyrishöftin hér á landi. Þá vilja þingmennirnir kanna aðrar leiðir til þess að afnema höftin.

„Í umræðunni um málið í gær hafa komið fram hugmyndir um fjórar leiðir, sem byggja að hluta á leikjafræði, til þess að afnema gjaldeyrishöftin á t.d. 3 til 6 mánuðum og að nefndin gæti haft forgöngu um slíka breytingu," segir í bréfinu.

Leiðirnar eru útlistaðar í béfinu og eru þær eftirfarandi:

1. Stiglækkandi skattlagningu á frjáls gjaldeyrisviðskipti.

2. Frjálsan markað með uppboð á krónum undir handleiðslu Seðlabankans, sem tengist ofangreindum atburði.

3. Sala á skuldabréfaflokki ríkissjóðs í erlendri mynt (t.d. evrum) með langan lánstíma og lága vexti (mikil afföll) sem kaupa megi og selja á frjáls markaði fyrir krónur og gjaldeyri. Þannig yrði mismunur á gengi krónunnar fluttur yfir á gengi skuldabréfsins.

4. Samninga við eigendur jöklabréfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×