Viðskipti innlent

Áfram röskun hjá Icelandair á morgun

Boðaðar verkfallsaðgerðir flugvirkja á milli klukkan sex og tíu í fyrramálið munu valda talsverðri röskun á áætlunarflugi Icelandair. Samsvarandi aðgerðir í morgun ollu verulegum seinkunum á öllu flugi félagsins í dag og fram á kvöld að því er segir í tilkynningu frá Icelandair.

Félagið hvetur viðskiptavini sína áfram til þess að fylgjast vel með komu- og brottfarartímum og jafnframt mun Icelandair koma upplýsingum um seinkun einstakra fluga með textaskilaboðum til farþega. „Verkfallsaðgerðir flugvirkja hafa áhrif á rúmlega 20 þúsund ferðamenn og valda ekki aðeins Icelandair kostnaði og tekjutapi því aðgerðirnar koma einnig illa við ferðaþjónustuna í landinu,“ segir ennfremur.

Þá segir að Icelandair hafi Flugvirkjafélaginu sambærilegar launahækkanir og aðrir í þjóðfélaginu hafa samið um að undanförnu, þar á meðal aðrir starfshópar Icelandair.  „Það eru því Icelandair mikil vonbrigði að Flugvirkjafélagið skuli hefja svo harðar aðgerðir á viðkvæmum tíma í ferðaþjónustunni þegar eldgosi er nýlega lokið.“

Upplýsingar um stöðuna og svör við ýmsum fyrirspurnum er að finna á www.icelandair.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×