Erlent

Allir taki þátt í uppbyggingu

Ástandið í Túnisborg hefur verið eldfimt undanfarna daga. Útgöngubann hefur verið í borginni.  Nordicphotos/afp
Ástandið í Túnisborg hefur verið eldfimt undanfarna daga. Útgöngubann hefur verið í borginni. Nordicphotos/afp

Viðræður um myndun þjóðstjórnar hófust í gærmorgun milli forystumanna helstu stjórnmálaflokka í Túnis.

Mohammed Ghannouchi, forsætisráðherra leiðir viðræðurnar og er allt kapp lagt á að koma saman nýrri ríkisstjórn sem fyrst eftir að Ben Ali forseti flúði land á fimmtudaginn var. Þar með lauk 23 ára strangri valdatíð hans.

Nýsettur forseti landsins Foued Mebazaa lýsti því yfir að enginn íbúi Túnis væri útilokaður frá pólitískri uppbyggingu landsins. Forystumenn andstöðuflokkanna ræddu við forsætisráðherrann á laugardag og sagðist Rached Ghannouchi, forystumaður hins islamska Ennahadha-flokks, sem gerður var útlægur í valdatíð Bens Ali, væntanlegur til Túnis innan fárra vikna.

Undanfarnar fjórar vikur hefur landið logað í óeirðum mótmælenda vegna atvinnuleysis, hækkandi matvöruverðs og pólitískrar spillingar. Fréttir breska ríkis­útvarpsins herma þó að tveir síðustu dagar eftir að forsetinn flúði land hafi verið rólegri og var útgöngubann stytt um tvo tíma í gær. Ástandið er þó enn viðkvæmt. Herinn hefur lokað miðborgina af og íbúar vígbúast með bareflum til að verja heimili sín.

- rat




Fleiri fréttir

Sjá meira


×