Skoðun

Framtíðarsýn borgarstjórnar í þjónustu við fatlaða

Björk Vilhelmsdóttir skrifar

Borgarstjórn býður þeim borgarbúum sem búa við fötlun velkomna í þjónustu borgarinnar nú eftir að ríkið hefur fært félagslega þjónustu yfir til sveitarfélaga. Nú í vikunni samþykkti borgarstjórn framtíðarsýn í þjónustu við fatlaða þar sem samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er leiðarljós borgarinnar. Í því felst viðurkenning á sjálfstæðu lífi á eigin forsendum, jöfn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, réttur til aðstoðar við að lifa innhaldsríku lífi og viðurkenning á fjölbreytileika mannlífsins og mannréttindum allra.

Borgarstjórn lítur svo á að hér sé stigið stórt skref í mannréttindum. Fólk er ekki flokkað í fatlaða og ófatlaða íbúa sem er bent á sitthvort staðinn þegar þeir þurfa á persónulegri aðstoð að halda, hér í Reykjavík leita allir til þjónustumiðstöðvar í sínu hverfi. Við vonum svo sannarlega að notendur þjónustunnar finni einungis fyrir því með jákvæðum hætti að borgin beri nú ábyrgð. Við getum a.m.k. hætt þeirri þekktu aðferð að varpa málum einstaklinga á milli ríkis og borgar þar sem ábyrgðarskiptingin var aldrei skýr.

Við berum ábyrgðina og viljum standa undir henni.

  • Framtíðarsýnin er sett fram í fimm meginpunktum:
  • Margbreytilegum þörfum borgarbúa verði mætt með sveigjanlegri og einstaklingsmiðaðri þjónustu sem veitt er af ábyrgð, virðingu og fagmennsku.
  • Aðgengi að þjónustu verði tryggt í nærumhverfi borgarbúa.
  • Jafnræði í þjónustu verði tryggt.
  • Víðtækt samráð verði haft við notendur, hagsmunasamtök, starfsfólk og háskólasamfélagið um þróun þjónustunnar.

Borgarbúar sem þurfa aðstoð í daglegu lífi hafi val um hvernig aðstoðinni við þá er háttað. Unnið verði að þróun notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar.

Við í borgarstjórn fögnum því að vera skrefinu nær því að vera eitt samfélag fyrir alla.

 




Skoðun

Sjá meira


×