Skoðun

Efnislega umræðu um ESB-aðild

Elvar Örn Arason skrifar

Fyrir síðustu alþingiskosningar voru Samfylking, Framsóknarflokkur og Borgarahreyfingin með á stefnuskrá sinni að hefja samningaviðræður við Evrópusambandið og leyfa þjóðinni að kjósa um aðildarsamninginn. Frá því að meirihluti þingmanna kaus að hefja samningaviðræður hefur lítill tími farið í málefnalega umræðu um kosti og galla aðildar.

Í vetur hafa andstæðingar sambandsins eytt mestu púðri í að tala um aðlögun Íslands að sambandinu, tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu eða hvort draga eigi umsóknina til baka. Nýlegar skoðanakannanir sýna að tveir þriðju hluti þjóðarinnar vill fá að kjósa um aðild að loknum samningaviðræðum. Á hinn bóginn er ríflega helmingur kjósenda á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Á þessum tímapunkti má segja að þetta endurspegli skynsama afstöðu kjósenda enda er ekki búið að semja og efnisleg umræða um samninginn hefur ekki átt sér stað.

Sjálfsmynd Íslendinga er evrópsk og almennt skipum við okkur á bekk með öðrum Evrópuþjóðum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst fyrst og fremst um pólitíska framtíðarsýn. Ísland er eina ríkið á Norðurlöndunum sem ekki hefur haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort taka eigi virkan þátt í Evrópusamstarfinu. Frá árinu 1994 hefur Ísland verið tæknilega aukaaðili að sambandinu í gegnum EES-samninginn. Það þýðir að við tökum upp stóran hluta regluverksins, án þess að sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.

Nú er tími til kominn að umræðan fari að snúast um þau málefni sem mestu máli skipta. Þau veigamestu eru sjávarútvegs-, neytenda-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldeyrismál, einnig þarf að eiga sér stað umræða um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og fullveldið á tímum hnattvæðingar.

Mikilvægt er að við förum að tala um þær umbætur á íslensku samfélagi sem þurfa að eiga sér stað alveg óháð því hvort að við göngum í sambandið eða ekki. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var mikið fjallað um nauðsyn þess að efla stjórnkerfið á Íslandi. Einhendum okkur í þær umbætur sem eru nauðsynlegar og látum aðrar bíða, þar til að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.

Kjósendur eiga rétt á því að fá að sjá aðildarsamning við ESB, meta kosti hans og galla og greiða um hann atkvæði. Hefjum málefnalega umræðu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.