Handbolti

Veit á gott fyrir Þjóðverja að tapa á Íslandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiner Brand þjálfaði einnig þýska landsliðið árið 2002.
Heiner Brand þjálfaði einnig þýska landsliðið árið 2002. Nordic Photos / Bongarts

Þó svo að Þýskaland hafi tapað báðum æfingaleikjunum sínum gegn Íslandi í Laugardalshöllinni um helgina þarf það ekki endilega að þýða að liðið sé í slæmum málum. Þvert á móti segir sagan að þá sé von á góðu hjá Þjóðverjum á HM í Svíþjóð sem hefst á fimmtudaginn.

Þjóðverjar höfðu tvívegis komið hingað til lands skömmu fyrir stórmót og í bæði skiptin, rétt eins og nú, töpuðu þeir báðum leikjunum. En í bæði þessi skipti komust þeir í undanúrslit á næsta stórmóti.

Í fyrra skiptið var það í janúar árið 1995. Þá vann Ísland báða leikina með litlum mun (22-20 í íþróttahúsi UBK og 22-21 í Laugardalshöllinni). Um vorið fór svo HM í handbolta fram hér á landi og komust Þjóðverjar í undanúrslit. Þeir enduðu þó í fjórða sæti eftir tap fyrir verðandi heimsmeisturum Frakka í undanúrslitum.

Enn athyglisverðara er að rifja upp þegar liðin mættust árið 2002. Ísland hafði betur í tveimur leikjum í Laugardalshöllinni 12. og 13. janúar, skömmu áður en Evrópumeistaramótið, sem einmitt var haldið í Svíþjóð, hófst.

Þá komust bæði Ísland og Þýskaland í undanúrslit. Þjóðverjar höfðu betur gegn Dönum og komust í úrslitaleikinn gegn Svíum. Sá var æsispennandi og réðst ekki fyrr en í framlengingu en að lokum voru það heimamenn sem höfðu betur og urðu Evrópumeistarar. Eins og frægt er máttu Íslendingar sætta sig við fjórða sæti mótsins.

Ef bæði lið komast upp úr sínum riðlum í Svíþjóð nú mætast Ísland og Þýskaland í milliriðlakeppninni, rétt eins og þau gerðu árið 2002. Það sem meira er - Guðmundur Guðmundsson var landsliðsþjálfari Íslands og Heiner Brand landsliðsþjálfari Þýskalands, rétt eins og nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×