Skoðun

Ríkisstjórnarsamstarfið

Magnús Orri Schram skrifar
Þegar tveir flokkar eða fleiri mynda ríkisstjórn fara fram samningaviðræður til að móta sameiginlega stefnu og á þeim grunni er gerður stjórnarsáttmáli. Við gerð hans fá ólík sjónarmið að koma fram og fólk ræðir sig til niðurstöðu um ákveðnar lausnir. Engin skoðanakúgun á sér stað, heldur reyna aðilar að finna lendingu sem myndar grundvöll samstarfs. Slíkt átti sér stað við gerð stefnuplaggs ríkisstjórnar VG og Samfylkingar.

 

Við sem erum hægra megin í stuðningsliðinu höfum hins vegar stundum verið ósátt við stefnu ríkisstjórnarinnar. Markviss uppbygging í atvinnulífi, mikilvægi erlendrar fjárfestingar og áhersla á sparnað í ríkisrekstri í stað skattahækkana hafa gjarnan mætt litlum skilningi samstarfsflokksins og málamiðlunin sem fylgir samstarfinu er manni ekki alltaf að skapi.

 

En stoltur getur maður hins vegar staðið á bakvið mörg verk þessarar stjórnar. Við höfum náð ótrúlegum árangri í rekstri ríkisins og á tímum mestu efnahagsþrenginga sögunnar hefur ríkisstjórninni tekist að tryggja að þeir tekjulægstu verða fyrir minnstu skerðingu kaupmáttar. Þá eru útgjöld til velferðarmála hærri 2011 en þau voru 2007.

 

Í stjórnarsáttmálanum var kveðið á um að sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu og bera síðan samninginn undir þjóðaratkvæði. Öllum var það ljóst að það var lykilforsenda Samfylkingar til að taka þátt í myndum þessarar ríkisstjórnar. Stjórnarsáttmálinn var síðan samþykktur í viðeigandi stofnunum hjá báðum flokkunum . Að okkar mati var löngu orðið tímabært að kanna möguleika á hagstæðum samningum við ESB um sjávarútveg og landbúnað, um leið og við freistuðum þess að losa þjóðina undan oki verðtryggingar og hárra vaxta. Umsóknin um ESB er mikilvægasta hagsmunamál almennings og fyrirtækja á Íslandi og þess vegna munum við jafnaðarmenn aldrei hlaupa frá því verkefni.

 

 

 




Skoðun

Sjá meira


×