Lífið

Magni vinnur með Kenneth Branagh

Magni Ásgeirsson stjórnaði tökunum í bresku útgáfunni af Wallander en þar fer Kenneth Branagh með hlutverk sænska lögreglumannsins.
Magni Ásgeirsson stjórnaði tökunum í bresku útgáfunni af Wallander en þar fer Kenneth Branagh með hlutverk sænska lögreglumannsins.
„Ég má bara eiginlega ekkert tjá mig um málið. Ég er bundinn trúnaði og það er bara eins gott að standa við það," segir Guðmundur Magni Ágústsson kvikmyndatökumaður. Hann stjórnaði tökum í sjónvarpsseríu BBC, breska ríkissjónvarpsins, um sænska lögreglumanninn Wallander sem Kenneth Branagh leikur.

Wallander-þættirnir eru byggðir á bókum eftir Henning Mankell og hafa notið talsverðra vinsælda í Bretlandi en margir Íslendingar ættu að kannast við sænsku útgáfurnar sem hafa verið sýndar á RÚV. „Ég held að þetta verði ekki sýnt fyrr en á næsta ári," segir tökumaðurinn en tökurnar fóru fram í Svíþjóð.

Magni, eins og hann er jafnan kallaður, hefur verið búsettur í Bretlandi undanfarin ár og unnið sem kvikmyndatökumaður þar við góðan orðstír. Hann var meðal annars kvikmyndatökumaður sjónvarpsseríunnar Spy sem sýnd var á Sky 1 og svo Free Agents á Channel 4 en þeir þættir fengu prýðilegar viðtökur og voru meðal annars endurgerðir í Bandaríkjunum.

Magni hefur ekki mikið gert af því að vinna hér á landi. „Ég kem þó alltaf í heimsókn reglulega," segir tökumaðurinn en hann stjórnaði þó kvikmyndatökum á heimildarmynd Sigur Rósar, Heima, og svo íslensku kvikmyndinni Brim. „Ég vann líka með Berki Sigurþórssyni að stuttmyndinni Come to Harm," segir Magni en sú mynd hefur vakið töluverða athygli. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.