Lífið

Elfar Aðalsteins á Óskarslista

Freyr Gígja Gunnarsson skrifar
Sailcloth er önnur stuttmynd Elfars Aðalsteinssonar en hún er ein tíu stuttmynda sem geta hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna.
Sailcloth er önnur stuttmynd Elfars Aðalsteinssonar en hún er ein tíu stuttmynda sem geta hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna.
Stuttmyndin Sailcloth eftir íslenska leikstjórann Elfar Aðalsteinsson er ein þeirra tíu stuttmynda sem koma til greina hjá bandarísku kvikmyndaakademíunni þegar tilnefningar til Óskarsverðlauna verða kunngjörðar í janúar á næsta ári. Þetta var tilkynnt í vikunni. Valið stóð á milli 107 stuttmynda.

Sailcloth er önnur stuttmynd Elfars en hún skartar sjálfum John Hurt í aðalhlutverki. Myndin er lauslega byggð á ævi útgerðarmannsins Alla ríka sem jafnframt er afi Elfars og leikstjórinn sjálfur var raunar staddur á Íslandi í stuttri heimsókn þegar hann fékk fréttirnar.

„Mér dauðbrá, satt best að segja, en á mjög jákvæðan hátt,“ segir Elfar í samtali við Fréttablaðið. Hann var þá kominn heim til Englands, með tvíreykt hangikjöt, rjúpur og malt og appelsín í farteskinu, það skal halda alvöru íslensk jól á enskri grund.

Flestalla kvikmyndagerðarmenn dreymir eflaust um, á einum eða öðrum tímapunkti, að vera tilnefndir til Óskarsverðlauna og Elfar viðurkennir að hafa sjálfur átt þann draum. Hann er hins vegar með báðar fæturna á jörðinni.

„Ég er mjög ánægður, þetta opnar ákveðnar dyr fyrir dreifingu og breytir miklu fyrir myndina í framhaldinu,“ segir Elfar sem fékk póst frá John Hurt, aðalleikara myndarinnar, eftir að þetta varð ljóst. „Hann óskaði okkur bara til hamingju,“ segir Elfar en Hurt leikur einnig í annarri mynd sem á möguleika á tilnefningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.