Lífið

Ólafur Arnalds tjaldar öllu til

Ólafur sendir frá sér þriðju breiðskífuna á næsta ári.
fréttablaðið/Valli
Ólafur sendir frá sér þriðju breiðskífuna á næsta ári. fréttablaðið/Valli
Ólafur Arnalds kemur fram í Hörpu í kvöld. Hann tjaldar öllu til á tónleikunum og flytur meðal annars inn þýska starfsmenn og sérhannaðan ljósabúnað.

„Þetta er nokkuð klappað og klárt. Það þarf bara að selja þessa síðustu miða,“ segir tónlistarmaðurinn Ólafur Arnalds.

Ólafur er á meðal duglegustu tónlistarmanna landsins og hefur verið iðinn við útgáfu og tónleikahald víða um heim undanfarin ár. Hann kemur fram í Norðurljósasal Hörpunnar í kvöld klukkan 20, en hann kom fram í sama sal á Iceland Airwaves-hátíðinni í október.

Hvernig gengur miðasalan?

„Hún gengur reyndar mjög vel. Þetta klárast. En maður er alltaf stressaður þangað til miðarnir klárast. Þeir þurfa að klárast,“ segir Ólafur, sem ætlar að tjalda öllu til í kvöld. Viðbúnaðurinn verður sá sami og á tónleikaferðum hans úti í heimi, en hann hefur ekki fengið tækifæri til þess fyrr en nú. „Við höfum alltaf verið með flott sjóv þegar við erum að túra. Það hefur aldrei tekist að gera það hér heima því hljóð- og ljósamennirnir mínir eru Þjóðverjar og það þarf að koma þeim hingað heim til að gera þetta. Svo eru græjur sem þarf að fljúga með til landsins, sérhönnuð ljós og annað slíkt,“ segir Ólafur.

Er eina vitið að reiða sig á þýsku nákvæmnina í þessu?

„Já, það er eina vitið (hlær).“

Tónleikar Ólafs í Hörpunni á Airwaves þóttu vel heppnaðir og hann er ánægður með húsið. „Ég fíla Hörpu, ég verð að segja það,“ segir hann. „Ég skammast mín ekkert fyrir að finnast þetta yndislegt hús og glæsileg viðbót við tónlistarlífið hérna. Auðvitað er eitthvað sem má slípa — þetta er glænýtt. Ég segi ekki að mér finnist allt frábært, en í heildina er þetta mjög jákvætt. Og þetta er geðveikur tónleikastaður.“

Erlendir gestir hafa verið í meirihluta á tónleikum Ólafs á Íslandi, sérstaklega á Airwaves þar sem þeir hafa ávallt verið í meirihluta. Býst hann við löndum sínum á tónleikana í þetta skipti?

„Já, ég vona það. Það er samt fólk að fljúga til landsins til að koma á tónleikana. Einhverjir frá Bretlandi og Bandaríkjunum. En þetta er bara eitthvað sem ég hef séð út undan mér.“

Ólafur er byrjaður að leggja drög að næsta ári og á meðal þess sem er fyrirhugað er þriðja breiðskífan, sem kemur út í haust. „Þar er hann Arnór úr Agent Fresco að syngja með mér. Þetta verður fyrsta platan með söng. Hann verður líka með mér í kvöld,“ segir Ólafur. Spurður hvernig samstarfinu miði segir hann það ganga mjög vel. „Útkoman hingað til er algjör snilld. Ég hefði ekki getað fundið betri söngvara, ég prófaði marga. Arnór var einhvern veginn bestur.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.