Lífið

Meistarakokkur eldar á bensínstöð

Alex, Einar og Emil hafa undanfarna mánuði undirbúið opnun Nam í tveimur löndum, í Svíþjóð og á Íslandi. fréttablaðið/vilhelm
Alex, Einar og Emil hafa undanfarna mánuði undirbúið opnun Nam í tveimur löndum, í Svíþjóð og á Íslandi. fréttablaðið/vilhelm
Alex Sehlstedt er matreiðslumaðurinn sem sér um matinn á nýja asíska skyndibitastaðnum Nam. Hann hefur eldað á Michelinstað og rekið sína eigin veitingastaði, en langaði að kynna asíska matargerð sína fyrir fleira fólki.

„Mér finnst gaman að gera eitthvað alveg nýtt,“ segir sænski meistarakokkurinn Alex Sehlstedt sem á heiðurinn að matseðli nýs veitingastaðar Serrano-manna, Nam.

Alex gekk til liðs við þá Einar Örn Einarsson og Emil Helga Lárusson sem yfirmatreiðslumaður Serrano-staðanna í Svíþjóð, en hann er eftirsóttur kokkur í heimalandi sínu og hefur unnið á Michelin-veitingastað ásamt því að reka sína eigin staði sem notið hafa mikilla vinsælda. Hann stökk svo á tækifærið til að þróa hugmynd að nýjum asískum skyndibitastað með tvíeykinu, því að eigin sögn þrífst hann á áskorunum og nýjungum. „Ég hef alltaf haft mestan áhuga á því að gera eitthvað sem hefur ekki verið gert áður. Fyrir fimmtán árum opnaði ég til dæmis veitingastað með miðausturlenskri matargerð í Svíþjóð, en þá skildi enginn af hverju ég var að því.“

Alex stofnaði svo annan veitingastað í Stokkhólmi og bauð þar upp á kínverska „fine-dining“ matargerð, sem er öðruvísi asískur matur en fólk á Vesturlöndum á að venjast að sögn kokksins. „Eftir að ég hætti með hann langaði mig að finna leið til að kynna þessa matargerð fyrir fleira fólki, og datt þá í hug að hægt væri að gera það með veitingastað sem væri hversdagslegur, fljótlegur og ódýr, í samvinnu við Einar og Emil.“

Nam opnaði í vikunni á N1-bensínstöðinni á Bíldshöfða, og það má ímynda sér að stökkið sé frekar stórt fyrir kokkinn sem hefur unnið að þróun matseðilsins undanfarna mánuði. Hann viðurkennir að hann sakni þess að elda á fínu veitingahúsi, en honum finnist þetta verkefni skemmtilegt og spennandi og hugmyndin frábær. „Ég hef trú á þessari hugmynd að geta boðið upp á bragðgóðan mat úr fersku hráefni á góðu verði.

Annað sem mig langar að koma til leiðar er að hækka virðingarstig kínverskar og asískrar matargerðar hér. Þetta er ekki allt matur sem bragðast eins, líkt og margir virðast halda. Þeir hafa ekki haft tækifæri til að komast að öðru, en núna bjóðum við upp á mat frá Kína, Kóreu og öðrum löndum, sem Íslendingar hafa ekki smakkað áður.“

Alex er á leið aftur til Stokkhólms en hlakkar til að fylgjast með viðtökum Íslendinga á veitingastaðnum. „Ég þekki Reykjavík náttúrulega ekki mjög vel en mér fannst að einhverju leyti undarlegt að byrja með staðinn á bensínstöð. Hins vegar hefur verið löng röð hjá okkur síðan við opnuðum, ég vona að það haldi áfram að vera mikið að gera svo að við getum opnað fleiri staði í borginni.“

bergthora@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.