Innlent

Öll ríki verði skuldbundin losunarkvóta

Christiana Figueras, framkvæmdastjóri sautjánda aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldin var í Durban í Suður-Afríku ræðir við þátttakendur. Mynd/Nordic Photos/afp
Christiana Figueras, framkvæmdastjóri sautjánda aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem haldin var í Durban í Suður-Afríku ræðir við þátttakendur. Mynd/Nordic Photos/afp
Samkvæmt samkomulagi sem gert var í fyrrinótt á loftslagsráðstefnu í Durban í Suður-Afríku taka þróuð ríki á sig lagalega bindandi skuldbindingar um minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda á grundvelli Kýótó- bókunarinnar.

Í tilkynningu frá íslenska umhverfisráðuneytinu segir að nýtt samningaferli um lagalega bindingu allra ríkja eigi að hefjast á næsta ári og leiða til samkomulags árið 2015.

Samkvæmt Kýótó-samkomulaginu taka nær 40 þróuð ríki á sig skuldbindingar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda árin 2008 til 2012. Umhverfisráðuneytið segir viðræður um nýjar skuldbindingar hafa staðið í um fimm ár en hafa verið lengi í sjálfheldu vegna skilyrða frá ríkjunum sem bera skuldbindingarnar.

„Annars vegar vilja þau að Bandaríkin, sem staðfestu bókunina ekki, hafi sambærilegar skuldbindingar og Kýótó-ríkin, en hins vegar að stór og ört vaxandi þróunarríki á borð við Kína, Indland og Brasilíu taki á sig aukna ábyrgð,“ segir ráðuneytið.

Japan, Rússland og Kanada segjast ekki tilbúin að taka á sig frekari skuldbindingar undir Kýótó. Þá segir umhverfisráðuneytið þróunarríki hafa lagt ofurþunga á að Kýótó haldi áfram eftir 2012 þrátt fyrir að þau eins og Bandaríkin ætli að standa fyrir utan.

Ríkin sem eru tilbúin að taka á sig nýjar skuldbindingar innan Kýótó eru ríki ESB, Ísland, Noregur, Sviss, Ástralía, Nýja-Sjáland og nokkur fleiri að. „Þessi ríki eru ábyrg fyrir um 16 prósentum heimslosunar,“ segir ráðuneytið.

Á lokasprettinum í Durban náði ESB því fram að vinna hefjist við gerð nýs lagalega bindandi samkomulags sem nái til allra ríkja ekki síðar en 2020. Eftir 2012 verður Ísland ekki með sérstaka tölulega skuldbindingu innan Kýótó heldur verður undir sameiginlegu „hvolfi“ flestra Evrópuríkja. Samþykkt sú tillaga Íslendinga að endurheimt votlendis komi til tekna varðandi losunarkvóta. „Votlendistillaga Íslands hefur almennt fengið jákvæðar undirtektir,“ segir umhverfisráðuneytið. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×