Lífið

Gefa út frumsamið jólalag

„Tónlistin er ástríða okkar beggja og við höfum sungið saman frá því að við vorum litlar," segir Greta Mjöll Samúelsdóttir sem myndar dúettinn SamSam ásamt systur sinni Hólmfríði.

Systurnar hafa komið fram í einkasamkvæmum um hríð en ákváðu í sumar að fara í stúdíó og taka upp nokkur lög. Eitt af þeim lögum er frumsamið jólalag eftir þær Gretu og Hólmfríði sem nefnist Desember. Lagið hljómar nú í útvarpi og á netinu.

Greta Mjöll er í námi í Boston samhliða því að spila fótbolta en hún er landsliðskona í knattspyrnu. Hólmfríður er grunnskólakennari en söngurinn hefur alltaf átt hug þeirra beggja.

„Hófí sér um að semja lögin okkar og spilar á píanó en ég spila smá á úkúlele. Ástæðan fyrir að við höfum ekki farið saman í stúdíó fyrr en núna var að okkur fannst við ekki nógu flinkar á hljóðfæri og skorti kjark til að fá til liðs við okkur flinka tónlistarmenn," segir Greta Mjöll en systurnar vöktu fyrst athygli fyrir söng sinn fyrir fimm árum er þær tóku þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna og fluttu lagið Ó María við góðan orðstír. Þá var það Greta Mjöll sem sá um að syngja og Hólmfríður raddaði.

„Við tókum upp jólalagið í Stúdíó Ljónshjarta með Þórði Gunnari sem sá einnig um að taka upp Ó María á sínum tíma. Draumurinn er að gefa út okkar eigið efni en nú stefnum við á að koma jólalaginu í útvarpsspilun heima," segir Greta Mjöll. Hún verður úti um jólin og því geta þær systur ekki komið fram opinberlega í kringum hátíðarnar. „Ef eftirspurnin verður mikil er aldrei að vita nema maður hoppi upp í næstu vél," segir Greta Mjöll hlæjandi að lokum.- áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.