Lífið

Arnaldur missti toppsætið til Yrsu

Yrsa komst loksins upp fyrir Arnald á bóksölulistanum sömu viku og listinn birtist ekki. Súrsæt tíðindi fyrir Pétur Má Ólafsson.
Yrsa komst loksins upp fyrir Arnald á bóksölulistanum sömu viku og listinn birtist ekki. Súrsæt tíðindi fyrir Pétur Má Ólafsson.
„Þetta eru bæði góðar fréttir og ömurlegar fréttir,“ segir Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld. Athygli hefur vakið að bóksölulistinn sem hefur birst vikulega í gegnum árin var hvergi sjáanlegur í síðustu viku. Þá gerðist það einmitt í fyrsta sinn í tíu ár að Arnaldur Indriðason átti ekki vinsælustu íslensku skáldsöguna, heldur Yrsa Sigurðardóttir, skjólstæðingur Péturs Más, með bókina Brakið.

„Þetta er svolítið eins og að vera með fæðingardaga fjölskyldunnar í lottóinu og í vikunni sem maður gleymir að spila koma tölurnar upp. En kosturinn við þetta er að það eru meiri líkur á að þetta gerist aftur heldur en að tölurnar í lottóinu komi aftur,“ segir Pétur Már, sem frétti af því fyrir viku að listinn kæmi ekki út þá vikuna. „Við vorum býsna súr yfir því, vegna þess að listinn skiptir máli í fjórar vikur á ári og fyrstu vikuna sem hann skiptir máli kemur hann ekki.“

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ástæðan fyrir því að bóksölulistinn var ekki birtur sú að starfsmaður Rannsóknarseturs verslunarinnar sem vinnur listann var í fríi.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins var Arnaldur síðast í öðru sæti á listanum árið 2001 þegar Ólafur Jóhann Ólafsson skákaði Grafarþögn með Höll minninganna. „Þessi listi hefur verið birtur í sextán ár með smá hléi og það hefur aldrei fallið út birting. En þegar hún fellur loks niður þá hafa orðið mikil tíðindi,“ segir Pétur Már, sem tekur fram að hann sé einnig ánægður með vinsældir Arnaldar. „Það er auðvitað gleðilegt að tvær íslenskar skáldsögur skuli seljast svona vel.“ - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.