Lífið

Myndband Duran Duran bannað – aftur

Nýjasta myndband "80 hetjanna í Duran Duran hefur verið tekið úr spilun af tónlistarstöðvunum MTV og VH1 þar sem myndbandið þykir of ögrandi og krassandi. Sænski leikstjórinn Jonas Åkerlund stýrði myndbandinu en það skartar mörgum af frægustu ofurfyrirsætum samtímans í aðalhlutverkum.

Breska poppsveitin Duran Duran er ekki dauð úr öllum æðum og hefur verið að kynna breiðskífuna All You Need is Now sem kom út á síðasta ári. Sveitin fékk einn umdeildasta myndbandaleikstjóra heims, Jonas Åkerlund, til að gera myndband við lagið Girl Panic en Åkerlund gerði meðal annars hið ákaflega klámfengna Pussy með rokksveitinni Rammstein og Telephone með þeim Beyoncé og Lady Gaga.

Útkoman reyndist vera níu mínútna löng stuttmynd með þeim Naomi Campbell, Cindy Crawford, Evu Herzigovu, Helenu Christensen og Yasmin Le Bon í aðalhlutverkum. Sem sagt, frægustu fyrirsætur allra tíma samankomnar í einu og sama myndbandinu. Fyrirsæturnar leika meðlimi Duran Duran sem sjálfir birtast í mýflugumynd í líki bílstjóra, ljósmyndara, barþjóna og vikapilta. En þrátt fyrir háan framleiðslukostnað og mikla vinnu ákváðu bæði MTV og VHI að banna myndbandið samkvæmt frétt á vef contactmusic.com.

Þar kemur fram að MTV og VHI hafi talið myndbandið vera of ögrandi og krassandi ásamt því að vörumerkja-innsetning sé alltof „augljós" og of mikil í myndbandinu, um sé að ræða dulbúna auglýsingu fyrir hinar og þessar vörur. „Viðbrögð MTV fara yfir strikið, þarna er ekki verið að brjóta blað í sögu tónlistarmyndbanda sem eru yfirleitt alltaf umdeild. Miðað við sum myndbönd er Girl Panic tiltölulega sakleysislegt," hefur vefurinn eftir heimildarmanni sínum sem bendir jafnframt á að yfir fjórar milljónir hafi séð það á myndbandavefnum YouTube. „Allir skemmtu sér konunglega við gerð myndbandsins sem hefur öll vörumerki Duran Duran, sjálfshæðnin og húmorinn eru aldrei langt undan."

Eins merkilegt og það kann að hljóma eru nákvæmlega þrjátíu ár liðin síðan myndband með Duran Duran var bannað síðast. Það var myndbandið Girls on Film þar sem fáklæddar stúlkur tókust á í glímu og sviptu loks sig og keppinauta sína klæðum. Það hneykslaði rækilega þegar það var frumsýnt og var í kjölfarið sett á svartan lista MTV og annarra sjónvarpsstöðva.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.