Lífið

Þingmenn á stífum dansæfingum

Ólína Þorvarðardóttir og Pétur Blöndal eru í hópi alþingismanna sem dansa á Degi rauða nefsins.
Ólína Þorvarðardóttir og Pétur Blöndal eru í hópi alþingismanna sem dansa á Degi rauða nefsins.
„Þetta verður mjög fróðlegt," segir Ólína Þorvarðardóttir þingkona, sem leggur hart að sér þessa vikuna við að undirbúa hátíðahöld á Degi rauða nefsins, sem haldinn verður með mikilli viðhöfn á föstudaginn.

Fjöldi sjálfboðaliða vinnur nú að skemmti- og söfnunardagskrá sem verður sýnd í opinni dagskrá Stöðvar 2. Meðal þess sem boðið verður upp á er óvenjulegt dansatriði þar sem þingmenn og björgunarsveitarfólk munu sýna á sér nýjar hliðar. „Mér féllust eiginlega fætur þegar ég uppgötvaði í hverju dansinn var fólginn. Ég hélt að við fengjum að svífa þarna um gólfið í einhverjum hefðbundnum danssporum og rifja upp gamla takta frá barnaskóladanskennslunni," segir Ólína, sem efast um að sú danskennsla muni hjálpa henni á æfingum hjá atvinnudansaranum Peter Anderson þar sem hún mun læra hópdans ásamt fleiri þingmönnum.

Tilhlökkun og örlítið stress eru í þingmannaliðinu, en þeir sem munu sýna glæsilega takta á dansgólfinu á föstudaginn eru auk Ólínu Vigdís Hauksdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Ólöf Nordal, Pétur Blöndal, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Margrét Tryggvadóttir og Árni Þór Sigurðsson. Fjöldi björgunarsveitarfólks tekur einnig þátt og á meðal þeirra verða tveir þyrluflugmenn og tveir meðlimir rústabjörgunarsveitarinnar sem fór til Haítí á síðasta ári.

Innt eftir því hvort Íslendingar fái að sjá nýja hlið á henni á föstudagskvöldið, játar hún því. „Ég óttast það já, að þjóðin muni sjá nýja hlið á mér þarna. Svo er annað hvort hún lætur sér vel líka. Ég vona bara að fólk taki viljann fyrir verkið." - bb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.