Lífið

Púslað með borgarstjóranum í bleikum kjól

Guðrún Heimisdóttir og Þóra Eggertsdóttir framleiða púslin Puzzled by Iceland. Þær bættu nýverið við línu sína púsli með mynd af Jóni Gnarr borgarstjóra.
Guðrún Heimisdóttir og Þóra Eggertsdóttir framleiða púslin Puzzled by Iceland. Þær bættu nýverið við línu sína púsli með mynd af Jóni Gnarr borgarstjóra.
Fyrirtækið Puzzled by Iceland hefur bætt við vörulínu sína og er nú hægt að kaupa púsl með mynd af Jóni Gnarr borgarstjóra klæddum í fagurbleikan kjól. Púslið ber heitið Puzzled by People og er hið fyrsta í þeirri línu.

Puzzled by Iceland var stofnað í fyrra af Guðrúnu Heimisdóttur og Þóru Eggertsdóttur og eru vörurnar ætlaðar sem minjagripir fyrir erlenda ferðamenn. Hluti ágóðans af sölu púslanna með Jóni Gnarr mun renna til Alnæmissamtakanna á Íslandi og því var ákveðið að púsluspilið færi í sölu 1. desember síðastliðinn en það er Alþjóðlegi alnæmisdagurinn.

„Okkur hafði lengi langað að framleiða púsl með mynd af frægum Íslendingi en ekki dottið niður á réttu myndina. Við rákumst svo á mynd af Jóni Gnarr í dragi í Gay Pride-göngunni í sumar og okkur fannst hún svo litrík og lífleg að við ákváðum að fá leyfi til að nota hana. Okkur þótti líka nafnið svo viðeigandi „puzzled by people". Hver vekur upp jafn margar spurningar meðal fólk og Jón Gnarr?" spyr Guðrún.

Borgarstjórinn fékk fyrsta púslið að gjöf á þriðjudaginn var og að sögn Guðrúnar var hann mjög ánægður með útkomuna. Innt eftir því hvaða þekktu einstaklingar séu næst á óskalista þeirra Guðrúnar og Þóru segir Guðrún þá vera marga og ólíka. „Þeir eru svo margir, Vigdís Finnbogadóttir er til dæmis á listanum enda er hún alveg stórmerkileg kona."

Guðrún segir púslin seljast vel og að þær séu ánægðar með viðtökurnar og lífið. „Þetta hefur gengið vonum framar og við erum vissulega kátar með það." - sm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.