Lífið

Blóðugt myndband Benna

Benedikt Hermann Hermannsson borðar helst ekki kjöt nema hann neyðist til þess.
Benedikt Hermann Hermannsson borðar helst ekki kjöt nema hann neyðist til þess.
„Ég hef ekki alveg fylgst með því hvað er satt og rétt í því," segir tónlistarmaðurinn Benedikt Hermann Hermannsson spurður hvort blóðugt myndband hans við lagið FF ekki CC hafi verið bannað á Youtube, enda finnst það ekki á síðunni.

Myndbandið var frumsýnt fyrir skömmu og hefur vakið mikla athygli en þar sjást nokkrir náungar gæða sér á blóðugum kjötbita með tilheyrandi subbuskab. „Lagið er um að það sé dálítið ógeðslegt að borða kjöt og af hverju maður sé að borða kjöt fyrst það er augljóslega svona ógeðslegt," segir Benni, sem er sjálfur hálfgerð grænmetisæta. „Mér finnst mjög ógeðslegt að borða kjöt en þegar ég neyðist til að gera það, geri ég það. Maður þarf stundum að gera hluti sem manni finnst leiðinlegir."

Myndbandið var gert í tilefni þess að plata hans Skot, sem kom út hér heima í fyrra, er að koma út erlendis. Listahópurinn Næsarinn leikstýrði myndbandinu og leikur einnig í því. Hann samanstendur af Örvari úr Múm, Sindra úr Seabear, Árna Vill úr FM Belfast, Mána, bróður Sindra og fleirum.

„Það er grófur stíllinn hjá þeim og ég vildi hafa myndbandið dálítið ógeðslegt. Þegar ég byrjaði að pæla í hvað ég sagði við þá í upphafi var það nákvæmlega eins og útkoman. Þetta var ferskt, skrítið en mjög ógeðslegt og mikið af blóði, þannig að þeir hittu alveg í mark."

Hægt er að sjá myndbandið hér á Vimeo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.