Skoðun

Að hirða arðinn af veiðunum

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Það leggst illa í LÍÚ að greiða ríkinu gjald fyrir að nýta gjöful fiskimið við landið. Framkvæmdastjóri þess kallar það í grein í Fréttablaðinu að „hirða arðinn af veiðunum“ frá þeim sem skila íslensku þjóðarbúi miklum verðmætum. Greiddir voru 90 aurar fyrir hvert kg af makríl í árferði sem fer í annála fyrir methagnað.

Flaggskip íslenskrar útgerðar, Samherji, greiddi sjálfviljugt færeyska landssjóðnum í útboði 100 kr. fyrir veiðirétt í þeirra lögsögu og græddi væntanlega samt. Varla verður það kallað að hirða arðinn af veiðunum.

Færeyingar fengu 19 sinnum meira í veiðigjald af hverju kg en umbjóðendur LÍÚ greiddu í ríkissjóð. Ef sama hefði verið greitt hér hefði ríkið fengið 2,7 milljarða króna í stað 140 mkr. Ef kvótinn hefði verið boðinn upp þá hefðu útvegsmenn greitt það sem þeir treystu sér til.

Samherji verðlagði réttinn, færeyski makríllinn var seldur sem unnin afurð á sömu erlendu mörkuðum og sá íslenski og fyrir hann fékkst sambærilegt verð. Mat mitt um 9 milljarða kr. fyrir veiðiréttinn, að því gefnu að fjórðungur kvótans hefði verið boðinn upp, hefur frekar styrkst með nýjum upplýsingum um mun hærra verð á erlendum mörkuðum en miðað hefur verið við.

En LÍÚ hefur þegar lagt línurnar. Vaxandi hluta kvótans veiða útvegsmenn ekki sjálfir heldur leigja öðrum á markaði gegn gjaldi til sín. Þá hirða umbjóðendur framkvæmdastjóra LÍÚ allan arð af veiðunum og telja það eðlilegt. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu var meðalleiguverðið á þorski síðasta fiskveiðiár 292 kr/kg. Af því greiddu útvegsmennirnir aðeins 6,44 kr. til ríkisins. Afganginn hirtu þeir í eigin vasa án nokkurs útgerðarkostnaðar. LÍÚ á að skammast sín fyrir það að bera blak af þessari taumlausu græðgi.

Það er mikill hagnaður á hverju ári af fiskveiðum umfram rekstrarkostnað og eðlilegan hagnað. Fjárhæðin er 35-45 milljarðar króna. Ætla má að ríkið fengi þessa fjárhæð að miklu leyti, ef veiðiheimildum væri ráðstafað á markaði beint til þeirra sem veiða. Óþarfi er að hafa milliliði. 71% kjósenda vill fara þá leið.




Skoðun

Sjá meira


×