Lífið

Framtíðin er runnin upp

Arnþór Snær Sævarsson og Eldar Ástþórsson stjórnuðu Skýjum ofar.
Arnþór Snær Sævarsson og Eldar Ástþórsson stjórnuðu Skýjum ofar. Mynd/Valgarður
Í tilefni þess að fimmtán ár eru liðin frá því að danstónlistarþátturinn Skýjum ofar hóf göngu sína á X-inu verður efnt til afmælistónleika 17. desember á Barböru við Laugaveg, þar sem áður var skemmtistaðurinn 22. Þátturinn var í loftinu í fimm ár og lauk göngu sinni á Rás 2.

Arnþór Snær Sævarsson stjórnaði Skýjum ofar ásamt Eldari Ástþórssyni og saman ætla þeir að spila jungle- og drum&bass-tónlist eftir Goldie, Roni Size, Squarepusher og fleiri. Þeir héldu á sínum tíma Skýjum ofar-kvöld á 22 þar sem stemningin var jafnan mikil og dansinn dunaði.

„Þegar við vorum á 22 var farið að hafa áhyggjur af því að gólfið væri að brotna undan dansóðum Skýjum ofar-hópnum því það dúaði svo mikið,“ segir Arnþór Snær en núna er búið að laga gólfið. „Það þýðir að við getum pakkað staðinn án þess að hafa áhyggjur.“

Tónlistin sem þeir spiluðu þótti nokkuð framúrstefnuleg. „Ef eitthvað er að marka það sem hefur verið að gerast í popptónlist síðustu árin heyrir maður alltaf endalausar tilvísanir í áhrif drum&bass-stefnunnar. Þessi tónlist er ekki alveg jafnmikið á jaðrinum og hún var,“ segir Arnþór. „Við vildum alltaf meina að þessi tónlist væri aðeins í framtíðinni en síðan er bara framtíðin komin. Það má segja að þetta sé tónlist samtímans núna.“

Þeir eru báðir orðnir feður í dag og ábyrgðarfyllri einstaklingar. Þrátt fyrir það eru þeir ennþá með danstaktinn í blóðinu. „Maður breytist aldrei sjálfur, bara hlutirnir í kringum mann.“

Hópur plötusnúða sem spilaði í þættinum stígur einnig á svið 17. desember. Sömuleiðis verður Skýjum ofar-þáttur á X-inu sama kvöld. Afmælið legggst að vonum vel í Eldar. „Það verður skemmtilegt að rifja upp gamla tíma. Það er mikill hugur í okkur og maður heyrir í kringum sig að fólk er búið að bíða eftir þessu.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.