Lífið

Vill tromma þrátt fyrir axlarbrot

Óvíst er hvort Egill geti tekið þátt í tónleikum Grafíkur vegna axlarbrots.
Óvíst er hvort Egill geti tekið þátt í tónleikum Grafíkur vegna axlarbrots.
„Þetta er tvísýnt. Ég ætla að hitta lækni og gera þetta í samráði við hann,“ segir trommuleikarinn Egill Rafnsson.

Hann varð fyrir því óláni að axlarbrotna fyrir um tveimur og hálfum mánuði og því er þátttaka hans í útgáfutónleikum Grafíkur 1. desember í óvissu. „Ég get ekkert notað upphandlegginn. Ég er handlama í raun og veru. Ég get notað framhandlegginn, hann er kominn í lag þannig að ég get gutlað eitthvað með,“ segir Egill, sem var á leiðinni heim frá London þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Atvikið átti sér stað á Esjumelum þar sem hann var á ferð sem leiðsögumaður fyrir fjórhjólahóp. Þegar hann keyrði fram af sandhóli datt hann af fjórhjólinu sínu og fékk það síðan yfir sig.

Þegar slysið varð var Egill nýbúinn að ráða sig sem trommuleikara í hljóðveri í London og var búinn að útvega sér íbúð þar í borg fyrir fjölskylduna sína. Þar hafa þau dvalið á meðan Egill hefur verið að jafna sig en óvíst er hvort starfið í hljóðverinu stendur enn til boða.

„Það verður að koma í ljós hvað þeir nenna að bíða eftir mér lengi. Þetta var fyrst hálfsársverkefni en ég vona bara það besta. Þetta stúdíó er ekkert voðalega merkilegt en hefði kannski getað verið byrjunin á einhverju.“

Ný heimildarmynd um Grafík verður frumsýnd á Ísafirði í kvöld og útgáfutónleikarnir verða í Austurbæ í tilefni af safnpakka með sveitinni sem spannar þrjátíu ára feril sveitarinnar. Faðir Egils, Rafn, sem er látinn, var einn af upphaflegum meðlimum Grafíkur.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.