Lífið

Victoria's Secret fyrirsæta klæðist Kalda

Ofurfyrirsætan Carolina Winberg klæddist kjól frá Kalda í Victoria‘s Secret eftirpartýi.
Ofurfyrirsætan Carolina Winberg klæddist kjól frá Kalda í Victoria‘s Secret eftirpartýi.
„Þetta er frekar gaman og auðvitað góð auglýsing fyrir merkið," segir Katrín Alda Rafnsdóttir, annar hönnuða íslenska fatamerkisins Kalda.

Sænska ofurfyrirsætan Carolina Winberg klæddist kjól frá Kalda í eftirpartýi eftir sýningu Victoria's Secret á dögunum.

Tískusýning Victoria's Secret er vinsælt umfjöllunarefni fjölmiðla um allan heim og hafa því myndir af fyrirsætunni í íslenskri hönnun birst víða.

„Carolina er í vinahópi með vinkonu okkar í New York og var svo elskuleg að sitja fyrir í auglýsingamyndum fyrir okkur en í staðinn gáfum við henni vel valdar flíkur frá Kalda," segir Katrín Alda.

Kjóllinn sem Winberg klæðist er úr sérstakri jólalínu merkisins sem fæst núna í búðinni Liberty í London og Einveru hér heima.

Winberg er fræg í tískuheiminum og hefur setið fyrir í auglýsingaherferðum fyrir tískuhús á borð við Valentino, Versace, Armani, Chloé, Ralph Lauren og nú einnig Kalda.

Það var íslenski ljósmyndarinn Silja Magg sem tók auglýsingamyndirnar af Winberg fyrir Kalda í New York fyrr í haust.

Systurnar Katrín Alda og Rebekka Rafnsdætur.
Kalda er að sækja í sig veðrið og hefur meðal annars verið fjallað um merkið á síðum sænska Elle, breska Vogue og Time Out Magazine.

„Það gengur vel og við erum að undirbúa næstu skref en vöru okkar hefur verið vel tekið í Liberty," segir Katrín Alda. -áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.