Lífið

Þjófar ekki smekkmenn á tónlist

Trommuleikarinn Einar Scheving er himinlifandi yfir því að hafa fengið bílinn sinn til baka.
fréttablaðið/stefán
Trommuleikarinn Einar Scheving er himinlifandi yfir því að hafa fengið bílinn sinn til baka. fréttablaðið/stefán
Bíll trommuleikarans Einars Scheving er kominn í leitirnar en honum var stolið á dögunum eins og Fréttablaðið greindi frá á föstudag. Strax sama dag fékk Einar símtal þar sem hann var látinn vita af bílnum.

„Þetta var fólk sem var á göngutúr í götunni sinni í Skerjafirði. Það hafði séð blaðið um morguninn,“ segir Einar, sem var að vonum himinlifandi yfir fregnunum.

Bíllinn var í góðu ásigkomulagi. Geislaspilara hafði verið stolið úr honum og klinki, auk kassa með kertum sem sonur hans hafði verið að selja fyrir drengjakór Reykjavíkur.

Trommudót og 25 kynningareintök af nýjustu plötu hans Land míns föður lágu aftur á móti ósnert í bílnum. „Það er greinilega enginn áhugi fyrir þessari tónlist á þeim bænum. Þetta eru ekki smekkmenn á tónlist en ætla samt að hafa það kósý yfir hátíðarnar með drengjakórskertunum,“ segir Einar, sem getur núna brosað út í annað eftir að hafa fengið bílinn til baka.

Spurður hvort fólkið sem benti honum á bílinn fái fundarlaun eins og hann var búinn að lofa segir trymbillinn: „Þetta gerðist svo hratt að maður átti eftir að útfæra fundarlaunin en maður gerir eitthvað gott fyrir þau.“

- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.