Lífið

Fleiri ábreiður frá Stebba og Eyfa

Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson eru mættir aftur með Fleiri notalegar ábreiður.
Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson eru mættir aftur með Fleiri notalegar ábreiður. fréttablaðið/anton
„Það má segja að þetta sé sjálfstætt framhald af fyrri plötunni,“ segir Eyjólfur Kristjánsson um plötuna Fleiri notalegar ábreiður sem er að koma út hjá Senu.

Fimm ár eru liðin síðan hann og Stefán Hilmarsson gáfu út Nokkrar notalegar ábreiður. Eins og með nýju plötuna hafði hún að geyma ýmis lög eftir aðra tónlistarmenn sem hafa verið í uppáhaldi hjá þeim félögum, þar á meðal Góða ferð sem naut mikilla vinsælda. Heildarsala plötunnar nemur yfir fimm þúsund eintökum.

„Þetta er bara hliðarverkefni sem okkur finnst gaman að ganga í þegar við höfum tíma til þess og efni og aðstæður eru í lagi,“ segir Eyfi, en tuttugu ár eru liðin síðan þeir félagar sungu Draum um Nínu í Eurovision-keppninni.

Nýja platan inniheldur lög á borð við Þín innsta þrá, Allt með öðrum blæ og Sælustraumur, þar sem Jóhanna Guðrún syngur dúett með Stefáni. Einnig er þar gamalt lag eftir Einar Vilberg, Love Me for a Reason, og lagið Ó Helga eftir Magnús Kjartansson.

Stefán og Eyfi ætla í tónleikaferð um landið á næsta ári til að fylgja plötunni eftir, rétt eins og þeir gerðu árið 2007. Sjálfur hefur Eyfi nýlokið vel heppnaðri tónleikaferð sinni um landið til að fylgja eftir safnplötu sinni.

Aukatónleikar verða þó í Hafnarborg 25. nóvember þar sem Stefán verður með í för og ætla þeir meðal annars að flytja efni af Fleiri notalegum ábreiðum. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.