Lífið

Bubbi syngur inn jólin á Akureyri

Bubbi Morthens heldur Þorláksmessutónleika fyrir norðan hinn 21. desember. Þeir verða með sama sniði og sömu uppröðun og hinir eiginlegu Þorláksmessutónleikar í Háskólabíói.Fréttablaðið/Stefán
Bubbi Morthens heldur Þorláksmessutónleika fyrir norðan hinn 21. desember. Þeir verða með sama sniði og sömu uppröðun og hinir eiginlegu Þorláksmessutónleikar í Háskólabíói.Fréttablaðið/Stefán
„Ég var að spila fyrir norðan í vor og þá kom sægur af fólki og kvartaði undan því að það kæmist aldrei á Þorláksmessutónleikana mína, það gæti aldrei farið suður á þessum árstíma því það væri svo erfitt. Þannig að ég settist yfir dæmið og velti því fyrir mér hvort og hvernig ég gæti komið til móts við þetta fólk. Og komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti haldið Þorláksmessutónleikana tveimur dögum fyrr fyrir norðan,“ segir Bubbi Morthens.

Árlegir Þorláksmessutónleikar hans eru fastur liður í jólahaldi margra og þeir verða á sínum stað í Háskólabíói hinn 23. desember. Bubbi ætlar hins vegar að halda ámóta tónleika í menningarhúsi Norðlendinga, Hofi, hinn 21. desember. „Þeir verða í sama formi og það verður svipuð uppröðun laga,“ segir hann og vonast til að sem flestir íbúar Norðurlands láti sjá sig. Hins vegar runnu á Bubba tvær grímur þegar rifjað var upp ársgamalt viðtal við hann, en þar sagðist hann einmitt vera orðinn svolítið lúinn á aðfangadag þegar öllu tónleikahaldi væri lokið. „Ég reyni yfirleitt að leggja mig með börnunum í klukkutíma,“ sagði hann fyrir ári. „Ég var eiginlega búinn að gleyma öllu þessu stússi en þetta verður allt í lagi, ég er í góðu formi, reima á mig hanskana á hverjum morgni og kýli og líkaminn og hjartað virðast vera í lagi,“ segir Bubbi í dag.

Tónlistarmaðurinn virðist í feiknaformi, hann gefur út veiðibók fyrir jólin og er á leiðinni í hljóðver eftir tíu daga til að taka upp nýja plötu. Hann kýs að lýsa sjálfum sér sem duglegum, ekki ofvirkum. „Þetta verður svona týpísk Bubbaplata, ballöður og mikið gítarspil.“ - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.