Lífið

Louis Vuitton pantar íslenskan kór

Hörður Áskelsson segir þreifingar eiga sér stað um að kórinn syngi líka hjá Louis Vuitton í Tókýó. Fréttablaðið/Anton
Hörður Áskelsson segir þreifingar eiga sér stað um að kórinn syngi líka hjá Louis Vuitton í Tókýó. Fréttablaðið/Anton
„Þetta er feykilega spennandi,“ segir Hörður Áskelsson, stjórnandi kammerkórsins Schola cantorum. Í lok mánaðar heldur átta manna hópur úr kórnum til Osaka í Japan þar sem hann mun syngja í tengslum við opnun tískuverslana Louis Vuitton. Schola cantorum er einn þekktasti kammerkór landsins og hefur komið víða við og hlotið fjölda viðurkenninga síðan hann var stofnaður árið 1996.

Kórinn er þekktur fyrir fjölbreytni í verkefnavali, til að mynda vann hann með Björk að Medúllu og tók þátt í flutningi Hrafnagaldurs Sigur Rósar, en þetta er frumraun kórsins í tískuheiminum. „Það er tískuhúsið Louis Vuitton í París sem pantar okkur í verkefnið. Böndin bárust að okkur í gegnum umboðsmann sem hafði spurnir af okkur, en þau vildu fá lítinn, góðan, norrænan kór til að flytja jólatónlist og norræna tónlist.“

Tískurisinn Louis Vuitton ætlar greinilega að opna með pompi og prakt í Osaka, því vinnan verður mikil að sögn Harðar. „Við munum syngja þarna nokkrum sinnum á dag í þrjá daga, á þremur stöðum í borginni. Þau vilja hafa efnisskrána fjölbreytta þannig að við munum flytja þjóðlega, íslenska tónlist í bland við hátíðlega jólatónlist. „Þetta er afskaplega skemmtilegt fyrir okkur sem erum svo heppin að vera boðið að gera þetta. Við ætlum bara að standa okkur vel og hafa gaman af.“

Þeim sem vilja sjá Schola cantorum áður en kórinn heldur í langferðina er bent á aðventutónleika sem haldnir verða 27. nóvember í Hallgrímskirkju. - bb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.