Skoðun

Vaðlaheiðargöng og pólitískt þrek

Gunnlaugur Fr. Jóhannsson skrifar
Það þurfti pólitískan kjark til þess að rífa Ísland upp úr fátæktinni og byggja nútímaþjóðfélag. Engir arðsemisútreikningar hefðu getað réttlætt heilbrigðisþjónustuna – þar sem ég starfaði lengstum – skólakerfið eða samgöngubæturnar. Allt var þetta byggt á eldmóði og hugsjón, með áræði og bjartsýni. Úrtölumenn voru nægir þá sem nú.

Vaðlaheiðargöngin mælast varla sem stórvirki á skala íslenskrar uppbyggingar en gætu vissulega bætt lífskjör okkar hér á Norður- og Austurlandi. Göngin leysa af hólmi hættulegan veg. Fyrst er vegurinn krókóttur, hæðóttur og með fjölmörgum tengingum svo minnir á húsagötu. Sjálft fjallaskarðið lokast síðan auðveldlega á vetrum, sem er meirihluti ársins ef mér leyfist að minna á þá augljósu staðreynd. Þetta er lífshættulegur vegur samkvæmt umferðartölfræðinni. Auk þessa sparast tími, leiðir styttast, ferðamennska fær ný tækifæri og fólk getur farið lengri veg í vinnu.

Við Akureyringar höfum borgað vegatoll í mörg ár og ekki kvartað. Nú erum við tilbúin að bæta samgöngur á eigin reikning. Reykjavíkurhælbítarnir leggjast gegn vegtollum, enda óvanir slíku. Vilja þá ekki á sitt svæði. Borgarfulltrúar, þingmenn, ritstjórar og stöku ráðherra reyna að koma í veg fyrir Vaðlaheiðargöng. Nú ríður á að þeir sem til einhvers duga láti verkin tala.




Skoðun

Sjá meira


×