Viðskipti innlent

Betware landar stórum samningi

Heimasíða Cirsa er risafyrirtæki en ekkert hefur verið gefið upp um virði samningsins fyrir Betware.
Heimasíða Cirsa er risafyrirtæki en ekkert hefur verið gefið upp um virði samningsins fyrir Betware.
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Betware hefur skrifað undir stóran samning við Cirsa Gaming Corporation frá Spáni. Í samningnum felst að Cirsa mun nýta sér leikja- og hugbúnaðarlausn Betware fyrir internet- og snjallsímavefi fyrirtækisins á Spáni og í fleiri löndum.

Cirsa, sem er með höfuðstöðvar á Spáni, rekur 32 spilasali, 83 rafræna spilasali, yfir 32 þúsund spilakassa, 88 bingósali og 139 íþróttaspilasali á Spáni, Ítalíu og í Mið- og Suður-Ameríku.

Þetta er stór áfangi í markaðs- og sölustarfi Betware, en Cirsa er fjórði erlendi viðskiptavinur fyrirtækisins auk danska og spænska ríkislóttósins og fylkislottósins í Bresku Kólumbíu í Kanada. Auk stórra erlendra viðskiptavina er Íslensk getspá viðskiptavinur Betware.

Starfsmenn Betware eru rúmlega hundrað á Íslandi, í Danmörku, á Spáni og í Kanada. Í tilkynningu kemur fram að Betware hafi á undanförnum misserum verið að fjölga starfsmönnum og að samningurinn við Circa, ásamt fleiri samningnum sem eru í vinnslu, muni styðja frekar við uppbyggingu á starfsemi fyrirtækisins innanlands. - shá






Fleiri fréttir

Sjá meira


×