Viðskipti innlent

Icelandair sker sig úr meðal flugfélaga

Bogi Nils Bogason
Bogi Nils Bogason
Hlutabréfaverð Icelandair Group, móðurfélags Icelandair og fleiri fyrirtækja, hefur hækkað um 81,3 prósent það sem af er ári. Á sama tímabili hefur hlutabréfaverð helstu flugfélaga Evrópu lækkað verulega. Þetta kemur fram í samantekt norska dagblaðsins Dagens Næringsliv um flugrekstur í Evrópu.

Í umfjölluninni segir að samspil hás eldsneytisverðs og minnkandi eftirspurnar vegna alþjóðlegu efnahagslægðarinnar hafi leikið evrópsk flugfélög grátt undanfarið, að Icelandair undanskildu.

„Við metum það þannig að þetta sé klárlega staðfesting á því að við séum að gera eitthvað rétt,“ segir Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group. „Við teljum að okkar rekstrarmódel hafi sannað sig síðustu misseri. Þá hefur leiðarkerfi Icelandair og okkar nýju leiðir, svo sem Seattle, komið mjög vel út.“ Bogi segir að hluta af hækkuninni megi án efa rekja til fjölgunar erlendra ferðamanna á Íslandi en bendir á að ferðir frá Íslandi hafi einnig aukist talsvert. Icelandair Group gekk á síðasta ári í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu og var í kjölfarið ráðist í hlutafjárútboð. Þar voru hlutir seldir á genginu 2,5 en það stóð í 5,7 síðasta miðvikudag. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×